131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:30]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður sátum sömu megin borðs og tókum á móti sveitarstjórnarmönnum þegar þeir komu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir hann draga svona heldur úr því sem sveitarstjórnarmennirnir voru að segja okkur því það var alveg algjörlega augljóst hverjum sem heyra vildi og sjá að fulltrúar sveitarfélaganna sem komu til okkar báru sig afskaplega illa yfir stöðu sveitarfélaganna og mun verr en t.d. árið áður þegar ég sat á sama stað og tók á móti fulltrúum sveitarfélaganna eins og hv. þm. Magnús Stefánsson hefur gert í nokkuð mörg ár.

Tillögur tekjustofnanefndar fyrir sveitarfélag þar sem ekki hefur orðið fækkun íbúa, þar sem tekjur hafa ekki dregist saman, þar sem ekki eru vandræði með félagslegt húsnæði og þar sem ekki eru ríkisstofnanir til að greiða fasteignaskatt, eru afskaplega rýrar. Slík sveitarfélög eru mörg í landinu, sérstaklega kannski úti á landi þar sem tekjur hafa nokkurn veginn haldist í horfinu, íbúum hefur ekki fækkað mikið, lítið er af opinberum stofnunum og félagslegar íbúðir ekki til vandræða. Ef menn horfa á tillögurnar þessum augum, með þessum gleraugum, er afskaplega lítið í þeim fyrir þau sveitarfélög þó þau séu alveg eins og önnur í vanda við að veita þá þjónustu sem lögin leggja á þau og íbúar krefjast.

Hv. þingmaður fór aðeins í gegnum jöfnunarsjóðinn. Það er alveg rétt að sjóðurinn er flókinn. Hann er ógegnsær og hann er orðinn ansi stór og fáir skilja reglur jöfnunarsjóðs. Gárungarnir segja að tveir starfsmenn í félagsmálaráðuneytinu skilji sjóðinn og til þess að þeir geri það þá þurfi þeir báðir að vera í sama herbergi á sama tíma því hvor þekkir aðeins lítinn hluta af reglunum fyrir sig. Það er þessi afneitun á vandanum sem ég er mest hissa á.