131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:34]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði að samfylkingarmenn hefðu verið pirraðir í upphafi umræðunnar og taldi skýringuna vera þá að þeir hefðu vonast til þess að sameining sveitarfélaganna yrði öll í uppnámi, þetta átak ríkisstjórnarinnar. Ekki ættu samfylkingarmenn að vera pirraðir þá vegna þess að þetta er nú greinilega allt í uppnámi og verður áfram. Engin ástæða er til þess að halda að þetta bjargist með þessari frestun, þ.e. að sú niðurstaða náist sem menn stefndu að. Eða meintu menn ekkert með því sem þeir sögðu þegar þeir sögðust stefna að miklum breytingum á sveitarstjórnarstiginu og að litlum sveitarfélögum mundi fækka mikið og sveitarstjórnarstigið yrði allt saman öflugra eftir? Því miður óttast ég að þetta muni ekki takast eins og til var stofnað.

Hvað varðar þessar tillögur um tekjustofna sveitarfélaganna þá hef ég lýst því hér áður að þetta er eins og að ausa lekan bát sem menn hafa lýst yfir að þeir ætli að gera við, hætta svo við viðgerðina og halda áfram að ausa. Ekki nema í hæsta lagi helmingurinn af hallarekstri sveitarfélaganna til framtíðar er þarna er á ferðinni miðað við þann hallarekstur sem hefur verið undanfarin ár og það er ekki nálægt því nóg til þess að skynsamlega sé að málum staðið.

Svo er annað. Ekki eru mörg ár síðan svoleiðis hagaði til hjá sveitarfélögunum að borð var fyrir báru fyrir sveitarstjórnarmenn að taka ákvarðanir um útsvarsprósentuna. Þar höfðu menn það annars vegar í huga að reyna að vera á sama róli og sambærileg sveitarfélög en geta samt veitt þeim þörfum fullnægingu sem sveitarfélögin eiga að standa undir. Á fáeinum undanförnum árum hefur það svo gerst að þetta svigrúm er allt saman horfið. Það þarf að skapa að nýju það svigrúm sem sveitarstjórnarmenn þurfa að hafa til þess að geta ákveðið tekjur sveitarfélaganna.