131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:36]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er þetta með Samfylkinguna blessaða. Ég var svo sem ekkert að finna upp neina kenningu sjálfur. Ég nefndi það hér að maður hefði svona heyrt þetta. Þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma stundum hér í ræðustól og eru með alls konar kenningar, samsæriskenningar sem snúa að hinum ýmsu flokkum, þá eru menn með alls konar kenningar í þjóðfélaginu og sjálfsagt að ræða það. Ég veit að Samfylkingunni finnst mjög gaman að ræða t.d. alls konar samsæriskenningar sem snúa að Framsóknarflokknum. Þeir hljóta því að skilja þetta.

Hv. þingmaður var að velta fyrir sér hvort menn hafi ekkert meint með áformum um breytingar og niðurstöðu í þessu verkefni. Ég þarf svo sem ekkert að eyða orðum í að svara því. Menn hafa meint allt sem þeir hafa sagt í þessu og það mikla starf sem hefur verið í gangi í þessu verkefni sýnir það. Auðvitað sjá menn ekki alltaf fyrir niðurstöðuna, en þeir leggja sig fram við að ná settu markmiði. Það hefur sannarlega verið gert í þessu starfi. Það verður síðan bara að koma í ljós hvernig til hefur tekist.

Það er síðan þetta með útsvarið. Út af fyrir sig er það rétt að á einhverju tímabili höfðu sveitarfélögin ákveðið svigrúm til að ákveða útsvarsprósentuna hvert fyrir sig. Hv. þingmaður saknar þess að svo sé ekki enn og út af fyrir sig má alveg taka undir það á sinn hátt. Við vitum hins vegar að sveitarfélögin hafa verið að efla sína þjónustu, að vísu svolítið mismunandi eftir sveitarfélögum. Þess vegna finnst mér að menn þyrftu líka að spyrja sig að því án þess að hafa nokkra niðurstöðu fyrir fram gefna hvort hugsanlega hafi einhver sveitarfélög spennt bogann of hátt í þjónustustigi sínu, framkvæmdum o.s.frv. Þetta mál nær yfir vítt svið og það er ekkert einfalt í því.