131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:38]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka fram vegna ummæla hv. þingmanns að ég treysti sveitarstjórnarmönnum í landinu afar vel og tel að þeir séu upp til hópa að vinna sína vinnu með virkum hætti. Það að ákveða að sveitarstjórnir hafi frjálst val um hver skattlagningin er og þar með álagningarprósenta útsvars finnst mér vera heldur langsótt. Ég tel afar mikilvægt að skattlagningarheimildir séu á hverjum tíma mjög skýrar. Eins og fram kom í máli mínu áðan er ákveðið svigrúm í álagningu útsvars eins og það er í dag og ég tel að það svigrúm sé nægjanlegt. Ég vil ekkert útiloka um aldur og ævi í þeim efnum en þetta er afstaða mín og ég undirstrika að ég tel afar mikilvægt að skattlagningarheimildir á hverjum tíma séu mjög skýrar.

Hv. þingmaður gerði enn og aftur að umtalsefni tekjuafgang eða tekjutap sveitarfélaganna á hverjum tíma. Eins og fram kom í máli mínu áðan er samkvæmt fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árið í ár gert ráð fyrir að samanlagður tekjuafgangur þeirra verði um 1,4 milljarðar. Við höfum talað um það í dag að á næstu þremur árum aukist tekjur sveitarfélaganna um ríflega 3 milljarða að meðaltali á ári og 1,5 milljarða á ári í framhaldi af því. Tillögur tekjustofnanefndar verða til umfjöllunar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sambandsþingi á morgun og í ríkisstjórn og nái þær fram að ganga hefur náðst mjög mikilvægur áfangi í þessum efnum að mínu mati.