131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:42]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur í hlutarins eðli að ef Alþingi mundi ákveða að fært yrði í lög að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi væri 1.000 en ekki 50 felur það í sér klára þvingun af hálfu löggjafans í garð sveitarfélaganna um sameiningu, um stækkun sveitarfélaganna og um breytingu á mörkum þeirra. Það liggur alveg fyrir að það er ekki eins lýðræðisleg leið og sú sem valin hefur verið og fylgt hefur verið um áraraðir, a.m.k. eitthvað á annan áratug frá því í tíð fyrrum hæstv. félagsmálaráðherra og flokkssystur hv. þingmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég hef talið og tel, eins og fram hefur komið í máli mínu í dag, að mikilvægt sé að við látum á þessa aðferð reyna til fullnustu og að við gefum sveitarfélögunum og íbúum þeirra tækifæri til þess í haust að kjósa um tillögur sameiningarnefndar. Hvað gerist í framtíðinni er ekki mitt að spá fyrir um.

Ég get, eins og líka hefur komið fram í máli mínu í dag, tekið undir með hv. þingmanni að sveitarfélögin þurfa að stækka, eflast og til þess sameinast. Þetta 50 íbúa lágmark er að mínu viti of lágt, ég get alveg sagt það hér. En sú aðferð sem við höfum valið að fara við að stækka sveitarfélögin og efla þau er mun lýðræðislegri en sú sem hv. þingmaður vill fara, þ.e. að ákveða með lögum að hækka lágmarksfjöldann t.d. úr 50 í 1.000 og þvinga þannig sveitarfélögin til sameiningar.