131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:48]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greið svör við spurningum úr Gallup-könnun. Það má segja að niðurstaða hennar kalli fram aðra spurningu og hún er sú hvort hæstv. ráðherrann geti upplýst hvaða reglur gilda þá eða giltu í sameiningarnefndinni þegar hún var að taka saman tillögur sínar um það hvort tekið verði tillit til álits sveitarstjórna varðandi það hvort þær teldu að það þýddi að kjósa um sameiningu nú eða ekki. Hvaða reglur giltu um það hvort tekið væri tillit til slíkra radda og voru þá sambærilegar reglur fyrir öll sveitarfélög? Með öðrum orðum, eru ekki lagðar til neinar sameiningar í þeim sveitarfélögum sem sögðu: „Nei, við viljum ekki sameiningarkosningu“? Það væri þá bara skýrt hvort um væri að ræða einhvers konar eina jafnræðisreglu fyrst verið var að biðja sveitarstjórnirnar að gefa út álit. Ef álitið hefur verið alveg skýrt og ótvírætt nei, tók þá sameiningarnefndin tillit til þess? Er þá niðurstaða sameiningarnefndar að þau sveitarfélög munu ekki kjósa um sameiningu núna?

Þegar maður sér tæp 64% segja nei í sveitarfélögunum utan Reykjanesbæjar á Suðurnesjum veltir maður þessu fyrir sér.

Loksins fæst það í gegn að ríkið fari að greiða fasteignaskatta af eigum sínum í sveitarfélögum. Ber að fagna því í sjálfu sér. Ég velti samt fyrir mér hvaða nýi álagningarflokkur þetta verði. Hvaða hlutfall ætlar ríkið að fara að greiða í fasteignaskatt? Getur verið að ríkið ætli að greiða t.d. lægri fasteignaskatt af fasteignum sínum í sveitarfélögunum en eldri borgarar margir hverjir gera sem fá þó fullan afslátt hjá sveitarfélagi sínu á fasteignagjöldum? Getur verið að ástand ríkisins sé slíkt að ríkið geti ekki greitt full fasteignagjöld og þurfi að greiða þau lægri en aðrir gera?