131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:07]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er stundum þannig í lífinu að það sem einum finnst neikvætt finnst öðrum jákvætt. Okkur í ríkisstjórninni finnst afar jákvætt að ýmsir aðilar hafi áhuga á því að fjárfesta á Íslandi og sem betur fer hafa erlendir aðilar og erlendir fjárfestar miklu meiri áhuga fyrir Íslandi sem fjárfestingarkosti en áður var. Þar er fyrst og fremst um að þakka því hagstæða umhverfi sem hér er í efnahagslegu tilliti, góðu umhverfi að því er varðar skattlagningu og fleira mætti tína til.

Það hlýtur að vera jákvætt að ýmsir aðilar hafi m.a. áhuga á því að fjárfesta í stóriðju. Hv. þingmaður talar um útsölu. Það dettur engum í hug að hafa útsölu í því sambandi og eftir því sem fleiri eru áhugasamir um slíkar fjárfestingar þeim mun líklegra er að það takist að ná góðum samningum í því sambandi.

Auðvitað eru líka ákveðin mörk sem við þurfum að líta til. Gert er ráð fyrir að álver á Austurlandi taki til starfa árið 2007. Það væri ekki hagkvæmt að vera með mjög margar slíkar stórfjárfestingar í gangi á sama tíma en það kemur mjög til álita að farið verði í sambærilega fjárfestingu eftir þann tíma. Því hefur verið haldið opnu í ríkisstjórninni og hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað fyrir því í nafni ríkisstjórnarinnar.