131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er því miður ekki nema hálf sagan að ýmsir aðilar hafi áhuga á að fjárfesta almennt í atvinnulífi okkar. Því miður er það ekki svo. Það eru fyrst og fremst þeir aðilar sem eru á höttum eftir ódýrri orku sem hafa verið að skoða og eru að skoða Ísland. Áhugi Íslendinga er ekki á því að fjárfesta í landinu heldur í útlöndum, eins og kunnugt er.

Það er vissulega gott að menn átti sig á því að einhvers staðar þarf að setja mörkin, en það sem hæstv. forsætisráðherra er að boða er sú óbreytta stefna að til greina komi að hella nýjum stórfjárfestingum af þessu tagi í hagkerfið í beinu framhaldi af þeim sem standa yfir. Með öðrum orðum á ekki að gefa hagkerfinu neinn tíma til að jafna sig, það á ekki að kæla það niður, það á ekki að leyfa öðru atvinnulífi að sjá neins staðar ljós við enda ganganna. Eða hvað mun það þýða ef sambærilegar stórframkvæmdir og við Kárahnjúka fara af stað í beinu framhaldi, t.d. á árinu 2007? Það þýðir að sjávarútvegur, ferðaþjónusta, iðnaður, útflutnings- og samkeppnisgreinar þurfa að búa við þetta, ekki bara næstu tvö árin heldur kannski næstu fjögur, fimm eða sex ár. Er það stefnan sem gildir í ríkisstjórninni?