131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:10]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann að sjá ekki allt svart í þessu sambandi. Við þurfum að sjálfsögðu að huga að því á mörgum sviðum að fjölga störfum hér landi, bæði að því er varðar iðnað og á ýmsum öðrum sviðum.

Það fer ekki á milli mála að uppbygging í stóriðju hefur skipt sköpum sem hreyfiafl í efnahagslífi okkar og ég veit að ég og hv. þingmaður erum ósammála um það. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að líta til allra tækifæra en útiloka ekki einhver ákveðin tækifæri, eins og ég veit að hv. þingmaður vill. Hann er á móti stóriðju og telur að það eigi ekki að beisla þá orku. Þar erum við ósammála og það er líka allt í lagi. Hv. þingmaður veit að ríkisstjórnin hefur allt aðra stefnu í þessum málum en flokkur hans hefur haft í langan tíma.