131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:13]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að það eina sem er að gerast í íslensku efnahagslífi sé uppbygging áliðnaðar á Austurlandi og stækkun álversins á Grundartanga. Það er margt annað. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mikið innstreymi erlends fjármagns í íslenskt efnahagslíf og það sem hér um ræðir er aðeins hluti af því innstreymi.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns út af afkomu atvinnuveganna, en hins vegar er nauðsynlegt að líta til þess jákvæða sem er í íslensku efnahagslífi og þar er flestallt jákvætt. Því miður virðist hv. þingmaður ekki deila þeim skoðunum sem koma ekki aðeins fram hjá ríkisstjórninni heldur koma skýrt fram hjá þeim matsfyrirtækjum sem hafa fjallað um Ísland og þeim alþjóðlegu stofnunum sem hafa fjallað um Ísland.