131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

2. fsp.

[15:16]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta er vægast sagt hið furðulegasta mál sem hér er fitjað upp á. Við ræddum í þinginu á fimmtudag að frumkvæði hæstv. félagsmálaráðherra þær tillögur sem fyrir liggja og samkomulag er um milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar tekjuskiptingu þessara aðila. Þar er um að ræða fullkomlega einhliða tilfærslu mikils fjármagns frá ríkinu til sveitarfélaganna þar sem ekki er um að ræða að verkefni fylgi með eða aðrir tekjustofnar komi á móti, þetta er fullkomlega einhliða afsal fjármuna frá ríki til sveitarfélaga í mjög stórum stíl, eins og hæstv. félagsmálaráðherra rakti í síðustu viku.

Hugmyndin var að sjálfsögðu sú og forsendan af hálfu okkar í ríkisstjórninni að peningarnir rynnu fyrst og fremst til þess að koma til móts við þau sveitarfélög sem höllum fæti standa. Er það ekki það sem hefur verið vandamálið, þau sveitarfélög sem hafa átt undir högg að sækja í landinu? Það var a.m.k. skoðun okkar.

Ef menn skoða hins vegar heildarmyndina hjá sveitarfélögunum — það þarf ekki annað en að fara inn á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og sjá hver spáin er um afkomu sveitarfélaga í ár og hver útgjaldaþróunin er, tekjur annars vegar og útgjöld hins vegar — þá er ekki að sjá að sveitarfélögin sem heild séu á neinu sérstöku flæðiskeri stödd.

Hins vegar gat borgarstjórinn í Reykjavík ekki á sér setið og var byrjuð að eyða peningunum um leið og búið var að tilkynna samkomulagið, þ.e. þeim hluta fjármagnsins sem á að renna til Reykjavíkurborgar. Mér er spurn: Er þetta hugmyndin sem var á bak við samkomulagið og kröfur sveitarfélaganna?

Ég vil segja: Það er illa komið í bakið á okkur í ríkisstjórninni með þessu máli og ég vil svara spurningu þingmannsins alveg skýrt. Það stendur ekki til af hálfu ríkisins að koma neitt inn í málið. Leikskólinn er málefni sveitarfélaganna. Ef þau hafa efni á því að gera hann gjaldfrjálsan er það að sjálfsögðu þeirra mál, gott ef svo er, en það er ekki málefni ríkisins.

Svo verð ég að bæta því við, virðulegi forseti, að það er engu líkara en Vinstri grænir hafi tekið að sér fjármálin í borginni.