131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:44]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst það eiginlega ekki virðingu Alþingis samboðið hvernig hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur vaknað greinilega stúrinn nokkuð í morgun og skeytir skapi sínu á virðulegum forseta með mjög ómaklegum ásökunum. Það sem hefur gerst er að forseti hefur farið eftir því vinnulagi sem hér hefur tíðkast áratugum saman. Virðulegur forseti tekur við beiðnum frá þingmönnum og skiptir þá ekki máli hvort það eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar. Það ætla ég að biðja hv. þingmann að hafa í huga að stjórnarsinnar hafa fullt leyfi til að bera fram óundirbúnar fyrirspurnir alveg eins og stjórnarandstæðingar. Það er síðan hæstv. forseti sem vinnur úr þeim eins og gert hefur verið í áratugi.

Það að gera athugasemdir við það með hvaða hætti utandagskrárumræða er hér sett á dagskrá er fráleitt og ég bið hv. þingmann að skeyta skapi sínu á þingflokksformanni sínum því að ákvarðanir um utandagskrárumræður eru ávallt teknar á fundi formanna þingflokka með virðulegum forseta. Um það er samkomulag þannig að ég bið hv. þingmann að beina úrillsku sinni og skapvonsku að sínum eigin mönnum en hlífa þingheimi við því.