131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:09]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru til umfjöllunar opinber innkaup og útboðsreglur ríkisins. Ég vil í upphafi máls míns leggja áherslu á að menn fari rétt með þær reglur sem um þessi efni gilda.

Í þeirri umræðu sem fram hefur farið hér um þetta tiltekna mál, þ.e. viðhald varðskipanna Ægis og Týs, hafa menn verið svolítið að hlaupa eins og kettir í kringum heitan graut með það hvort reglurnar hafi verið brotnar eða ekki. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar menn taka þátt í umræðunni að þeir segi bara hreint út ef þeir telja að ekki hafi verið farið eftir reglum. Við vitum auðvitað öll að ef svo er höfum við úrræði fyrir bjóðendur til að leita réttar síns, til að mynda um það að lægsta tilboðinu hafi ekki verið tekið þegar allt er tekið með. Þá er auðvitað langeinfaldast fyrir bjóðendur að láta reyna á þá skoðun sína. Engin ástæða er til þess að blanda hæstv. fjármálaráðherra í það mál sérstaklega enda hefur hann, eins og fram hefur komið, enga beina aðkomu haft að þessu máli. Að því leytinu til er dálítið einkennilegt að sjá hv. þm. Birki J. Jónsson fjalla um þátt hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að hann var hér í mínum sporum fyrir nokkrum dögum að vekja athygli þingmanna á því að hæstv. iðnaðarráðherra hefði enga aðkomu haft að málinu. Það er alveg sama staðan uppi með hæstv. fjármálaráðherra, hann hefur enga beina aðkomu haft að afgreiðslu þessa máls.

Aðeins varðandi ISO-vottunina sem gerð var krafa um. Skoðun mín er að það sé fullkominn óþarfi að gera skilyrði í útboðinu sem íþyngja innlendum iðnaði sérstaklega og alveg óskiljanlegt ef svo er og mikið umhugsunarefni fyrir Ríkiskaup ef þau hafa gerst sek um að setja skilyrði sem setja íslenska þátttakendur í útboðinu í þrengri stöðu gagnvart öðrum bjóðendum en ástæða er til.