131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:04]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að fjalla um stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um sveitarstjórnir sem hefur borist frá hæstv. félagsmálaráðherra. Efni þess er í sjálfu sér einfalt. Það er að heimila að fresta þeim kjördegi sem settur hafði verið inn í lög og átti að vera nú 23. apríl næstkomandi varðandi átak í sameiningu sveitarfélaga.

Nú er það í sjálfu sér ekki tilefni langra ræðuhalda að horfast í augu við veruleikann. Þessi dagsetning er auðvitað gersamlega óraunhæf eins og allt er í pottinn búið. Þó er ekki hægt að láta það fara alveg umræðulaust, a.m.k. ekki af minni hálfu, í gegnum þingið hvernig að þessu máli hefur verið staðið og hvernig ýmislegt í kringum það hefur verið rekið af hæstv. ríkisstjórn. Mér þætti ákaflega vænt um ef hæstv. forseti gerði hæstv. fjármálaráðherra viðvart um það að hann á alveg erindi hingað í þingsalinn, m.a. í kjölfar orða sinna í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag þar sem hann var að blanda sér nokkuð sérkennilega í þessi mál og senda sveitarfélaginu Reykjavík kveðjurnar eða hitt þó heldur. Ég sé að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir heiðrar okkur með nærveru sinni þannig að helmingurinn af þeim orðaskiptum er þá til staðar í salnum. En það væri ánægjulegt ef hæstv. fjármálaráðherra væri hérna til að styðja við bakið á félagsmálaráðherra sínum eða kannski hitt þó heldur því stundum læðist að manni sá grunur að hæstv. ríkisstjórn sé ekki tiltakanlega samstillt í þessum málum frekar en ýmsum fleirum. Ég vil a.m.k. ekki trúa því að hæstv. félagsmálaráðherra sé ánægður með uppskeruna, að geðleysi hans og metnaðarleysi fyrir hönd sveitarfélaganna sé því um líkt að hann geri orð hæstv. fjármálaráðherra að sínum, að bærilega sé boðið af hálfu ríkisvaldsins í þessum samskiptum. Ef svo er held ég að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að hugleiða að biðja formann sinn um að fá sér eitthvert annað ráðuneyti því að ég held að sveitarfélögin þurfi á meiru að halda en hagsmunagæslumanni sem væri sáttur í félagsmálaráðuneytinu við það sem komið hefur út úr þessum viðræðum eða í stefnir nú.

Það þarf náttúrlega ekki að fara mörgum orðum um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Hún liggur fyrir. Þær staðreyndir geta menn kynnt sér. Þær hafa iðulega verið dregnar fram í dagsljósið á Alþingi á undanförnum missirum og árum og eru í hnotskurn þær að sveitarfélögin hafa verið rekin með tapi um 15 ára skeið, samfellt 12–14 ár a.m.k., kannski með þeirri einu undantekningu að eins og á einu ári hafa þau náð nokkurn veginn endum saman, verið rekin á núllinu. En viðvarandi hallarekstur sveitarfélaganna er staðreynd og skuldasöfnun af stærðargráðunni 2 og 3 til 4 og 5 milljarðar á ári. Þetta er einfaldlega veruleikinn hvernig sem menn belgja sig út um eitthvað annað og hvað sem stendur í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar eða hvað sem menn segja hér úr ræðustól jafnvel þó að þeir séu hæstv. fjármálaráðherrar, þá liggur þetta fyrir, þetta eru staðreyndir. Þær er hægt að sækja inn á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það liggur fyrir í ársskýrslum o.s.frv.

Gætt hefur alveg ótrúlegrar tregðu af hálfu ríkisvaldsins til þess að skapa hinu stjórnsýslustiginu í landinu, sveitarstjórnarstiginu, lífvænleg og viðeigandi starfsskilyrði, viðeigandi í þeim skilningi að í raun sé hægt að ætlast til þess að einhverjir gefi sig að því að vera í forsvari fyrir sveitarfélög. Það er ekki tekið út með sældinni að axla ábyrgð af því að reyna að reka svona meðaltalssveitarfélag, venjulegt sveitarfélag, t.d. sjávarútvegssveitarfélag á landsbyggðinni, við þessar aðstæður þegar róðurinn þyngist ár frá ári og menn eru í sífellt meiri björgunarneyðaraðgerðum til þess að lifa af, seljandi frá sér eignir, skerandi niður þjónustuna og geta hvorki hreyft hönd né fót til uppbyggingar nema slá það allt að láni. Þannig eru aðstæðurnar og það á bara að ræða um þá hluti eins og þeir eru.

Þess vegna vakti það mikla undrun satt best að segja að einmitt á sama tíma og ríkisstjórn taldi sig geta lagt hér fyrir þingið tillögur um hátt í 30 milljarða skattalækkun á þremur árum, hátt í 30 milljarða afsal á tekjum af hálfu ríkisins, þá var ekki nokkur leið að koma til móts við sveitarfélögin svo neinu næmi í varanlegum tekjustofnum eða varanlegri úrlausn á stöðu þeirra. Það var að vísu vissulega boðið dálítið í tímabundnar reddingar og gulrætur ef menn vildu fara að þeim óskum ríkisstjórnarinnar að fara í stórfellda sameiningu sveitarfélaga og taka í framhaldinu við útgjaldafrekum verkefnum. Þá var eitthvað svolítið í boði en ekki til þess að bæta úr þeim hallarekstri sem sveitarfélögin búa við og er staðreynd og er af þessari stærðargráðu og ekki er tiltölulega mikið um deilt að er þessi, þ.e. að lágmarki um 3–4 milljarðar í varanlegum tekjum á ársgrundvelli miðað við núverandi verkefni. Engu slíku var til að dreifa.

Hvað er boðið af hálfu ríkisins í þessu samkomulagi? Jú, menn leggja þetta allt saman, sameiningargulræturnar og tímabundnar ráðstafanir, m.a. framlengingu á greiðslum vegna málaflokka eins og fráveitumála sem hafa dregist og þar sem mikið verk er óunnið. Þeir telja sér þetta allt saman til tekna, sem einhverja úrlausn í sambandi við fjárhagsstöðu sveitarfélaganna vegna rekstrarins í núinu. En auðvitað er það ekki þannig. Það eru útgjöld á móti í þessum fráveitumálum sem sveitarfélögin þurfa þá að ráðast í, ekki satt? Þetta reikniverk er því allt saman með endemum og það sér hver einasti maður strax í gegnum þetta.

Hvað er varanlegt í þessum pakka sem ríkisstjórnin er að bjóða upp á, hæstv. fjármálaráðherra af rausn sinni sem telur ríkissjóð svona vel staddan að hann geti misst af 30 milljörðum frá og með árinu 2007 á ársgrundvelli? Jú, það eru 600 eða 800 millj. kr. eftir því hvernig það er reiknað og eru fyrst og fremst fólgnar í því að ríkið ætlar að greiða fasteignagjöld af eignum sínum í ríkari mæli en gert er. Hverjir fá þær tekjur? Að uppistöðu til Reykjavík. Að sjálfsögðu, hér er obbinn af hinu stóra opinbera húsnæði. Er það í samræmi við málflutning hæstv. fjármálaráðherra hér fyrr í dag sem sagði að menn hefðu sérstaklega ætlað í þessar ráðstafanir til að styrkja stöðu verst settu sveitarfélaganna? Er þá aðferðin sú að ríkið fari að borga svolítil fasteignagjöld af eignum sínum sem eru fyrst og fremst staðsettar í nokkrum stærstu sveitarfélögum landsins þar sem eru miðstöðvar hinnar opinberu þjónustu, þar af auðvitað langmest í Reykjavík?

Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra eigi að koma hér upp og standa fyrir máli sínu og reyna ekki að bera á borð fyrir Alþingi þvætting af þessu tagi og biðjast afsökunar á árásum sínum á Reykjavík og Reykjavíkurlistann hér áðan. Auðvitað er þetta alveg furðulegt, virðulegur forseti. Forsetar leyfa sér stundum að setja ofan í við þingmenn ef þeir fara út af sporinu og fara í umræður um alveg óskyld málefni. En aldrei hafa svo ég viti til verið gerðar neinar athugasemdir við að Sjálfstæðisflokkurinn setji hér á leikrit til þess að bera nöldrið úr minni hlutanum í Reykjavíkurborg inn í sali Alþingis. Duglegastir við það eru auðvitað borgarfulltrúarnir sjálfir sem eiga hér jafnframt sæti, hæstv. ráðherra Björn Bjarnason og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. En þetta er orðin bara allsherjarlína í flokknum þannig að jafnvel þingmenn úr öðrum sóknum eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir koma hér upp sem leikendur í leikritinu svo að hæstv. fjármálaráðherra geti komið hér með ónotin í garð R-listans.

Var málefnalegt að ráðast sérstaklega á Reykjavíkurlistann eða Reykjavíkurborg fyrir það að kynna áform sín um að halda áfram þegar markaðri stefnu um að taka skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla sem er þegar í framkvæmd? Fyrsti áfangi hófst frá og með síðastliðnu hausti og liggur fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun þessa árs o.s.frv. Þetta voru ekki nýjar fréttir. Hv. þingmenn hafa þá fylgst illa með. Borgarfulltrúarnir í minni hlutanum í Reykjavík hafa verið fulllengi að hringja í félaga sína á þingi og láta þá vita af þessu. Það er að verða ársgömul frétt (Gripið fram í: ... málefnalegt.) að Reykjavíkurborg hefur mótað þá stefnu að taka skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla sem við að sjálfsögðu fögnum. Ég geri það a.m.k. og minn flokkur enda höfum við barist sérstaklega fyrir því, flutt þingmál um það sem reyndar liggur fyrir þessu þingi.

Ég hélt að Reykjavíkurborg væri fjárráða og mótaði stefnu um það hvernig hún ráðstafaði tekjum sínum. Að reyna að tengja þetta svona ómálefnalega við það að þessi harmkvælaniðurstaða, ef niðurstöðu skyldi kalla, bar upp á um svipað leyti eftir þessar óskaplegu meðgönguhríðir og fæðingarhríðir, nær ekki nokkurri átt. Það bara kemur málinu ekkert við. Reykjavík ráðstafar sínum tekjum og tekur um það sjálfstæðar ákvarðanir, hélt ég. Menn ættu ekki að þurfa að láta sér koma það á óvart að þar væru félagslegar áherslur við lýði, eða hvað? Hafa menn ekki áttað sig á því hvernig meiri hlutinn er samansettur hér í borginni? Ég veit að það er sárt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og örvænting þeirra virðist vaxa með hverjum deginum sem líður eins og við sjáum af þeim leikritum sem hér eru sett upp hvað eftir annað, þar sem hvert minnsta tilefni er notað til þess að reyna að leita höggstaðar á Reykjavíkurlistanum.

Það er stundum nefnt hið fornkveðna að menn séu að reyna að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi. Ég held að þetta snúi þannig. Hér þarf kannski að snúa því við, að menn eru að reyna að hefna þess á Alþingi sem hallaðist á þeim í héraði, þ.e. minni hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er svo slappur og aumur að gervallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þarf að reyna að ganga í lið með honum og nota til þess ræðustólinn á Alþingi, að sarga á Reykjavíkurlistanum og meiri hlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er reisn yfir því, eða hitt þó heldur.

Það væri gaman ef við þingmenn í landinu tækjum almennt upp þessa stöðu, að menn færu að gera ræðustólinn á Alþingi að sérstökum vígvelli skoðanaskipta um málefni sveitarfélaga sinna og rífast um þau. Hér eru tveir þingmenn úr Vestmannaeyjum sem hefðu t.d. getað leikið þann leik og víðar að eru auðvitað þingmenn sem gætu gert þetta að málstofu fyrir sjónarmið meiri hluta og minni hluta, sérstaklega kannski minni hluta í þeim sveitarfélögum þar sem þeir væru grátt leiknir og stæðu sig illa í málflutningi. Það er ekki hægt annað en ræða þetta því þetta keyrir um þverbak hvernig sjálfstæðismenn láta í þessum efnum, m.a. úr ræðustóli á Alþingi.

Reykjavíkurborg er sem betur fer nokkuð aflögufær sem sveitarfélag, enda er það ekki skrýtið þar sem um er að ræða langstærsta og langtekjuhæsta sveitarfélag landsins. Reykjavíkurborg reynir að ráðstafa þeim tekjum í ýmis góð félagsleg uppbyggingarverkefni, mætti gera meira af því mín vegna, en þó er virkilega ánægjulegt að sjá það sem vel er gert og er í rétta átt, eins og það átak sem hér hefur verið gert á sl. áratug í dagvistunarmálum. Við lítum á það að gera leikskólann gjaldfrjálsan sem hluta af því og tilheyrir þeim málaflokki.

Það er líka mjög gleðilegt hvernig pólitískur stuðningur við þá stefnu hefur vaxið ört undanfarna mánuði, meira að segja er svo komið að þau gleðitíðindi bárust af flokksþingi framsóknarmanna. Má ég ekki nefna það, forseti, mér er legið á hálsi fyrir að vera of upptekinn af því en ég vona að framsóknarmenn gleðjist þegar ég ætla að hrósa þeim, að það var ein pínulítil ljósglæta á þinginu hjá þeim þegar Framsóknarflokkurinn gekk í lið með okkur hinum sem vill berjast fyrir gjaldfrjálsum leikskóla. Á þeim forsendum sem auðvitað blasa við, að þetta hlýtur að gerast sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Þarna er um að ræða útgjöld sem nema um 2,5 milljörðum kr. sem sveitarfélögin þyrftu að taka á sig ef þau felldu með öllu niður leikskólagjöld af u.þ.b. 11 milljarða kostnaði við málaflokkinn. Þetta liggur allt saman fyrir í fylgiskjölum með þingsályktunartillögu okkar um samstarfsverkefni um gjaldfrjálsan leikskóla, þannig að gögnin eru til staðar. Upplýsingarnar eru fyrir hendi. Við vitum u.þ.b. hvað þetta mundi kosta sveitarfélögin ef þau gerðu þetta öll. Auðvitað vilja þau þetta öll, nema kannski einhver örfá helblá sveitarfélög þar sem íhaldið ræður ríkjum. Það kann vel að vera að menn séu þar svo forstokkaðir, þó efast ég um það, því ég sé ekki einu sinni að þetta sé endilega að fara í mikið flokksgreinarálit, nema þá helst að minni hlutinn í Reykjavík sé í fýlu út af þessu eins og flestu öðru.

Ég setti í greinargerð með tillögu okkar í haust að tvö sveitarfélög í landinu væru komin af stað með þetta. Það gerði ég vegna þess að ég hafði þá ekki upplýsingar um meira en að það væru Reykjavíkurborg og sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem var þá í undirbúningi að fjárhagsáætlun sinni að leggja sama til. Síðan var ég í heimsókn vestur á fjörðum og mér til mikillar ánægju þegar við heimsóttum sveitarfélagið Súðavík gátu menn þar á bæ upplýst okkur um það og voru stoltir af að þeir hefðu líka tekið fyrsta skrefið í þessa átt, að fimm ára börn væru þar að verulegu leyti gjaldfrjáls í leikskólanum. (Gripið fram í: En Akureyri?) Þau eru svo fleiri. Já já, ég veit að þetta er komið af stað á Akureyri og menn eru að endurskoða gjaldskrárnar víðar veit ég og ég tek fagnandi við öllum upplýsingum um að fleiri séu að bætast í hópinn. Það breytir því ekki að þetta þarf að koma upp á borðið í hinum tekjulegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Og að heyra málflutning af því tagi sem hæstv. fjármálaráðherra var með fannst mér dapurlegt. Ef það verður niðurstaðan að móta stefnuna í landinu, ef það er þingmeirihluti fyrir henni, ætlum við væntanlega ekki að láta sjálfstæðismenn koma í veg fyrir að viljinn nái fram að ganga út af andúð sinni og fýlu á núverandi meiri hluta í sveitarfélaginu Reykjavík. Það gengur ekki. Við skulum líka láta sjálfstæðismenn standa frammi fyrir því. Eða er samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn ánægður með undirtektir hæstv. fjármálaráðherra við ályktun landsþings framsóknarmanna um að stefna beri að gjaldfrjálsum leikskóla sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga? Það er þá kannski fleira en skipasmíðaiðnaðurinn og þannig mál sem eru farin að verða svolítið út og suður í stjórnarsamstarfinu. Það skyldi ekki vera en það væri orðið erfitt í fleiri málaflokkum?

Það sem ég vil segja að lokum, virðulegur forseti, um fjárhagsmálin almennt, fjárhagsleg samskiptamál ríkis og sveitarfélaga og stöðuna sem þar er nú þegar þessi dapurlega niðurstaða, ef niðurstöðu skyldi kalla, er uppi á borðum í framhaldi af nefndarstarfinu er að hvernig sem þessu reiðir af nákvæmlega núna er eitt ljóst, að hér hafa ekki litið dagsins ljós neinar varanlegar tillögur sem duga sem grundvöllur þessara samskipta til einhverra ára. Það er viðurkennt af öllum nema ríkisstjórninni. Ég vísa í afgreiðslu málsins á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem sérálit bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, fær verulegar undirtektir og erfitt að komast hjá því að álykta að það hafi verið sá andi sem sveif yfir vötnunum á þinginu þegar maður les bókun stjórnarinnar og samþykkt 19. landsþings sambandsins frá 18. mars. Þar er beinlínis sagt það sama og segir í bókun minni hlutans í tekjustofnanefndinni, að hér séu eingöngu tímabundnar aðgerðir á ferðinni. Því er vísað frá að þarna hafi náðst niðurstaða sem sé varanleg í nokkrum skilningi.

Það er alveg ljóst að það er ákaflega fátæklegur stuðningur við það sem meirihlutafulltrúarnir í tekjustofnanefnd létu sig hafa að skrifa undir eftir allt þófið sem þeir hafa staðið í við ríkisstjórnina og skilar þessari ákaflega mögru niðurstöðu. Ótrúlegri satt best að segja. Það eitt kemur út úr því að ríkið fær að borga svolítil fasteignagjöld af eignum sínum sem dreifist mjög sérkennilega í ljósi þess hvaða sveitarfélög eiga í hlut o.s.frv.

Verklagið í ferlinu vekur líka ýmsar spurningar. Hversu tilgangslaust það er að hafa þessa hluti í þeim farvegi sem þeir hafa verið. Ég sé ekki annað en taka verði verkefnið af framkvæmdarvaldinu. Það er ekki fært um að eiga samskipti við sveitarfélögin í landinu með eðlilegum hætti. Það er ljóst. Ég held að Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að taka málið í sínar hendur og leysa það með þeim hætti að einhver mannsbragur væri að. Stokka upp hin fjármálalegu samskipti þannig að sæmilegt jafnræði væri með stjórnsýslustigunum hvað afkomu snertir. Ég veit ekki betur en við séum skuldbundin til þess. Við erum aðilar að Evrópusáttmála um sjálfstæði sveitarfélaga og þar hvílir á okkur sú skylda að sjá sveitarstjórnarstiginu fyrir skynsamlegum og fullnægjandi starfsskilyrðum, sanngjörnum starfsskilyrðum og fullnægjandi tekjustofnum til að inna verk sín af hendi. Þannig er það ekki í dag. Það þýðir ekki að koma endalaust og segja að vegna þess að aðstaða sveitarfélaganna sé misjöfn þurfi ekkert að gera, skýla sér á bak við einhver endalaus meðaltöl og segja að þess vegna sé þetta ekki okkar mál. Ekki gerum við það gagnvart vanda þeirra hópa í samfélaginu sem eiga erfitt og þurfa á stuðningi að halda. Við notum það ekki sem afsökun fyrir því, alla vega ekki þeir sem taka sjálfa sig alvarlega, að gera ekki neitt í málefnum tekjulægstu hópa samfélagsins að meðaltekjur í landinu séu sæmilegar. Það væri þá nýtt.

En það er í raun það sem menn eru að segja í sambandi við sveitarfélögin. Er það þó ekki einu sinni sambærilegt að því leyti til að meðalsveitarfélagið er svo sannarlega ekki í lagi hér. Menn skjóta sér á bak við það að lítill minni hluti sveitarfélaganna sem teljandi eru, ef ekki á fingrum annarrar handar þá a.m.k. samtals á fingrum þeirra beggja, nær endum saman og býr við þolanlega afkomu, en þeim fer ört fækkandi, samanber t.d. hversu mörg sveitarfélög bættust í hópinn um síðustu áramót sem fullnýta nú tekjustofna sína. Ástæðan fyrir því að nokkur í viðbót gera það ekki er sú að menn hafa viljað taka slíkar hækkanir í áföngum. Menn hafa ekki viljað skella á einu bretti of harkalegum hækkunum á af skiljanlegum ástæðum. Þeim mun undarlegri verður því niðurstaðan og þeim mun meiri athugasemdir er óhjákvæmilegt að gera við verklagið.

Það er gott að menn horfast í augu við raunveruleikann og átta sig á því að kosningar 23. apríl almennt í sveitarfélögunum hefðu verið eins og hver annar barnaskapur við þessar aðstæður. Mönnum á að sjálfsögðu að vera frjálst og menn að meiri ef þeir sjá að sér í slíkum efnum. Það er því sjálfsagt að greiða götu þess að kosningunum verði frestað. En það má spyrja hvort eitthvað sérstakt bendi til þess að staðan breytist mikið ef ríkisstjórnin eða fjármálaráðherra heldur því til streitu að gera ekki neitt í viðbót við það sem komið er og ef málin skýrast ekki á einn eða neinn hátt hvað varðar þann grundvöll sem sveitarfélögin hafa inn í framtíðina, varanlegan grundvöll til að sinna verkefnum sínum. Verður óvissan eitthvað mikið minni í haust? Ég er ekki viss um það. Þá og því aðeins tel ég að sá tími sem er til stefnu þangað til gagnist mönnum eitthvað og nýtist að menn setjist yfir þessa hluti aftur og komist að einhverri sanngjarnri niðurstöðu. Hún er ekki í höfn. Hún er ekki í sjónmáli. Hún er úti í hafsauga í því tilboði eða þeim afarkostum ríkisvaldsins sem að vísu meiri hluti tekjustofnanefndar lét sig hafa að skrifa undir af hvaða ástæðum sem það var, ég skal ekki hafa uppi neinar getgátur um það.

Það virðist þó því miður vera svo að á einhvern hátt bresti þá samstöðu sem manni hefði fundist að hefði átt að vera auðvelt að byggja upp meðal sveitarfélaganna í landinu um að láta ekki bjóða sér þetta lengur. Ég verð að segja það hér, eins og ég hef oft hugsað það, að mig undrar langlundargeð og þolinmæði forustumanna sveitarfélaganna í landinu holt og bolt og þeirra sem þar eru sérstaklega í forsvari, að draga stanslaust stutta stráið í samskiptum við ríkið, að láta hlunnfara sig og hafa af sér í hverjum málaflokknum á fætur öðrum. Það vantar ekki listana þegar þau mál ber á góma, en vera svo alltaf tilbúin til að gera einn samninginn enn á sömu nótum þar sem ekkert er í hendi um að verið sé að taka varanlega á málum. Við heyrum kvartanir yfir því hvernig skattkerfisbreytingar án nokkurs samráðs við sveitarfélögin hafi af þeim stórfelldar tekjur. Við heyrum um allar nýju reglugerðirnar og tilskipanirnar sem í gegnum löggjafann og ríkisvaldið lenda á sveitarfélögunum og þau standa uppi varnarlaus gagnvart og verða að taka á sig útgjöldin. Við heyrum klögumálin út af því hvernig ríkið kemur ekki með sinn hluta fjármunanna í sameiginlega málaflokka, eins og húsaleigubætur, eyðingu refa og minka eða fastakostnaðarhlutdeild í uppbyggingu t.d. í framhaldsskólum.

Í öllum tilvikum líðst ríkisvaldinu, framkvæmdarvaldinu, í skjóli meiri hluta síns á Alþingi að láta halla á sveitarfélögin í slíkum samskiptum, því miður. Menn eru uppi með útreikninga um milljarðana sem þarna eigi í hlut. En samt finnst manni eins og að menn ætli enn einu sinni að kyssa vöndinn og ganga til samkomulags um hluti sem eru alls ekki forsvaranlegir og standast ekki þær kröfur sem við ættum að gera til þess að samskipti stjórnsýslustiganna í landinu, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins annars vegar og sveitarstjórnarstigsins hins vegar uppfylli skilyrði um að vera sanngjörn og réttlát og búa báðum aðilum viðunandi og sambærileg kjör.

Það getur ekki verið sanngjarnt eða réttlátt að haga þessu þannig að á löngum, löngum árabilum sé annar aðilinn að greiða niður skuldir, hreykja sér af því að geta lækkað álögur en hinn aðilinn sé settur í þá stöðu að verða að gera hið gagnstæða; safna skuldum og hækka álögur.

Það ætti þá að færa hlutina þarna til eins og við höfum reyndar lagt til og ég minni á að fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga þar sem lagt er til að sú prósenta í tekjuskatti sem lækkaði um síðustu áramót færist yfir til sveitarfélaganna sem heimild til frekari útsvarshækkana. Nú er það að vísu ljóst að sveitarfélögin hafa verið uppi með tillögur og hugmyndir um að málið yrði leyst með þeim hætti að þau fengju hlutdeild í stærri, breiðari og varanlegri tekjustofnum en í tillögum ríkisins eða í boði ríkisins er öllum hugmyndum sveitarfélaganna um aukinn hlut í föstum tekjustofnum vísað frá. Meginkröfu sveitarfélaganna í þessum viðræðum var einfaldlega vísað frá og ríkið var ekkert til viðtals um hana.

Það væri þá a.m.k. skref í áttina að þau fengju að nýta í ríkari mæli þennan helsta tekjustofn sinn, þ.e. útsvarið, þau sveitarfélög sem þurfa þá á því að halda. Staðan sýnir að væntanlega yrði það yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaganna sem mundi strax frá byrjun reyna að nota sér það, þurfa á því að halda og gera það. Síðan mætti þá með tekjujöfnun í gegnum Jöfnunarsjóð bæta því sem á vantaði við þau sveitarfélög sem lakast standa að vígi vegna lágra meðaltekna.

Þetta er sjálfsagt ekki, herra forseti, í síðasta sinn sem við tökumst á um þessi mál því að ætli þessi frestun leiði nú annað yfir okkur en að þurfa að koma að málinu aftur strax næsta haust með einum eða öðrum hætti, eins og bóndinn hérna handan Skerjafjarðar mundi segja, hvernig sem kosningunum reiðir af, ef þær verða, 28. október eða hvenær það nú er. Þá er allt hitt eftir sem lýtur að því að skoða framhaldið. Ég endurtek að lokum þá eindregnu hvatningu mína að menn noti tímann í vor og sumar til að komast eitthvað áleiðis í þessu. Varla getur það verið þannig að hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórn langi til að koma hér með allt niður um sig á nokkurra mánaða fresti og verða að hrökklast undan og biðja um fresti og viðurkenna að þeir hafi ekki getað unnið verkið sem til stóð, heldur koma þessum hlutum þannig fyrir að kominn væri einhver grundvöllur til þess að hafa þessa kosningu og ræða svo eða skoða framhaldið um verkaskiptingu.