131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:33]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eins og við var að búast, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór vítt og breitt með stóryrðum um það samkomulag sem nú hefur verið gert á milli ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er eiginlega alveg ótrúlegt af því að hér tók hv. þingmaður það upp í ræðu sinni að ég hefði spurt hæstv. fjármálaráðherra út í hvort hann hefði gert eitthvert sérsamkomulag við borgarstjórann í Reykjavík út af gjaldfrjálsum leikskóla.

Það er alveg ótrúlegt hvað hv. þingmaður er viðkvæmur út af þessu atriði. Ætli það sé vegna þess að honum finnist að Samfylkingin sé búin að stela þessu góða málefni frá Vinstri grænum? Af því að borgarstjórinn í Reykjavík tilheyrir samfylkingararminum í R-listanum, þá sé svo komið að búið sé að stela góðu málefnunum frá Vinstri grænum? Eða hvað skyldi liggja þarna á bak við?

Ég einfaldlega spurði hæstv. fjármálaráðherra sem vörslumann ríkissjóðs hvort þarna væri eitthvert samkomulag við borgarstjóra. Af hverju skyldi ég hafa spurt að því? Af því að fram hefur komið í mörgum viðtölum við borgarstjórann að ríkið mundi koma að því að greiða niður gjaldfrjálsan leikskóla. Og í ljósi þess að við ræddum þetta samkomulag hér fyrir helgi — þá var ekki minnst einu orði á að ríkið ætlaði að fara að borga gjaldfrjálsan leikskóla — fannst mér full ástæða til að vita hvort þetta samkomulag hefði verið gert og engin ástæða til annars en að ræða það í þinginu. Menn hafa stundum og minni hlutinn hér í þinginu, stjórnarandstaðan, viljað spyrja að minni atriðum og af minna tilefni. (Forseti hringir.) Þetta er því alveg ótrúleg viðkvæmni hjá Vinstri grænum.