131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki góð aðferðafræði að reyna að svelta sveitarfélögin til hlýðni eða svelta þau til ábyrgðar eins og mér finnst stundum liggja í þeim málflutningi þegar fjárhagsvanda sveitarfélaganna ber á góma, þá koma strax ræðurnar um nauðsyn þess að veita þar aðhald o.s.frv. og jafnvel bent á einstök sveitarfélög þar sem mönnum hafi kannski verið eitthvað mislagðar hendur tímabundið við fjármálastjórn eins og gengur og gerist. En ég held að ríkið megi líka líta í sinn eigin barm í þeim efnum og ætli menn séu þá ekki stundum að kasta steinum úr glerhúsi, það skyldi nú ekki vera?

Það liggur alveg fyrir að þessi málaflokkur, ef fella á niður leikskólagjöldin í heild fyrir allan leikskólann, þá verði útgjöld miðað við núverandi stöðu upp á um 2,5–3 milljarða kr. og síðan þarf vissulega að sjá fyrir sér þróunina og þær breytingar sem í framhaldinu geta orðið. Þetta getur kostað meira þegar fram líða stundir þegar allir væru farnir að nýta sér þetta. En þá eru menn líka að fá mikið í staðinn og þetta eru ekki útgjöld af þeirri stærðargráðu að við þurfum að hrökkva eitthvað undan með það, ekki a.m.k. þegar þau eru sett í samhengi við skattalækkunaráform upp á 30 milljarða. Þá er greinilega talsvert svigrúm til staðar í þjóðfélaginu.

Ég hef hvergi heyrt borgarstjórann í Reykjavík halda því fram, það kann að hafa farið fram hjá mér í þeirri umræðu, að gert hafi verið neitt samkomulag við ríkið um þetta. Hitt er annað mál að það liggur alveg ljóst fyrir að erfitt verður fyrir sveitarfélögin að hrinda þessu í framkvæmd að óbreyttum tekjulegum samskiptum. Þau hafa ákaflega lítil efni á því og raunar engin. Þess vegna hafa flestir sett þetta upp og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði frá byrjun sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaganna. Þannig hljóti þetta að þurfa að gerast og koma inn í endurskoðun á tekjulegum samskiptum þeirra.

En að lokum stendur eftir ein spurning og henni er ósvarað: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli? Eru ónot fjármálaráðherra í dag í garð áforma (Forseti hringir.) um gjaldfrjálsan leikskóla stefna Sjálfstæðisflokksins?