131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:42]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns inna eftir því hvort hæstv. fjármálaráðherra sé staddur í húsinu fyrst hann er ekki staddur á fundinum.

(Forseti (BÁ): Hæstv. fjármálaráðherra er ekki staddur í húsinu samkvæmt þeim upplýsingum sem forseti hefur.)

Þá óska ég eindregið eftir því við hæstv. forseta að þeirri hvatningu verði komið á framfæri við hæstv. fjármálaráðherra að hann komi í húsið og verði við umræðuna. (Gripið fram í.) Það er meiri manndómsbragur að því þegar menn nota sér ræðustólinn á Alþingi til að vega að borgarstjóranum í Reykjavík fjarstöddum að þeir séu þá hér staddir við umræðu um tekjustofna sveitarfélaga og séu til svara fyrir stefnu sína þar. Ég vil láta af því vita að í ræðu minni hef ég í hyggju að fara nokkrum orðum um fjölskyldustefnu hæstv. fjármálaráðherra og mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að hann hafi kost á því að vera hér til andsvara. En ég veit og treysti því að hæstv. forseti kemur þessu vel og skikkanlega á framfæri við hæstv. ráðherra og vonast til að hann sjái sóma sinn í því að vera við umræðuna, því að í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hann nýtti tækifærið til að ráðast á borgarstjórann í Reykjavík getur enginn annar blandað sér í umræðuna en sá þingmaður sem spyr, í því tilfelli úr Sjálfstæðisflokknum, og hins vegar hæstv. ráðherrann sjálfur.

Við ræddum það frumvarp sem hér liggur nánast óbreytt á fimmtudaginn var og í sjálfu sér engin efni til annars en að styðja frumvarpið enda styðja fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd þessa afgreiðslu málsins og finnst í raun sjálfsagt að veita hæstv. félagsmálaráðherra þetta svigrúm með sameiningarkosningarnar fram á haustið, því að það sem hér er til afgreiðslu er í sjálfu sér ekki annað en það að áður ákveðin dagsetning um kosningar til sameiningar sveitarfélaga, sá frestur verði lengdur fram á haustið án þess þó að varna því að menn geti kosið nú ef þeir svo kjósa og einhver sveitarfélög munu nýta sér það.

Ástæðan fyrir því að frumvarp þetta er fram komið er tiltölulega einföld. Hún er sú að stórhuga og metnaðarfull áform hæstv. félagsmálaráðherra um að efla sveitarstjórnarstigið, standa þar fyrir verulegum sameiningum, verkefnatilflutningi og öðru slíku, öll þau miklu áform eru nú strönduð með öllu og nokkuð einsýnt að þetta kjörtímabil mun nýtast illa til að efla sveitarfélögin í landinu. Ég held að í því efni sé síst við hæstv. félagsmálaráðherra að sakast. Ég held að metnaður hans hafi staðið til þess að ná einhverju fram í þessu. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið mjög fastur fyrir og neitað algerlega að veita sveitarfélögunum í landinu nokkra úrlausn að heitið geti í hinum fjárhagslegu samskiptum eins og kallað er. Það verður þess valdandi að ekki er hægt að fara í þær sameiningar sem þó er þörf á, sameiningar á sveitarfélögum í stórar og öflugar einingar þannig að þær geti tekið við verkefnum frá ríkisvaldinu. Það er til að mynda niðurstaðan í nefnd hæstv. heilbrigðisráðherra um verkefnatilflutning til sveitarfélaganna að efla þurfi sveitarfélögin langt umfram það sem nú er og umtalsvert umfram tillögur sameiningarnefndar til þess að þau verði nægilega stór og burðug til að taka við frekari verkefnum.

Það er hins vegar þjóðþrifamál að flytja margvíslega þjónustu frá ríki til sveitarfélaganna. Ég nefni þar málefni fatlaðra, ég nefni þar sérstaklega heilsugæsluna og heimahjúkrunina, nærþjónustu af þessu tagi sem varðar íbúa í hverju sveitarfélagi miklu og við höfum góða reynslu af að sveitarfélögunum er vel treystandi fyrir og þau veita sannarlega þannig að sómi er að. Við höfum reynsluna af því í grunnskólanum og við höfum líka reynsluna af leikskólanum, en hér hefur einmitt í dag farið fram nokkur umræða um hversu mikil metnaður og stórhugur er í sveitarfélögunum að veita fyrsta flokks þjónustu á þessum tveimur skólastigum og ætti auðvitað líka við ýmis verkefni sem ríkið mætti sannarlega sinna betur en gerði best með því að efla sveitarstjórnarstigið og flytja verkefnin til þess.

Það er sannarlega miður að nú líði heil fjögur ár án þess að menn nái nokkrum áföngum í þessu. Á Íslandi er ríkið með tvo þriðju hluta verkefnanna en sveitarfélögin aðeins með þriðjung. Þessu er algjörlega öfugt farið í nágrannalöndum okkar þar sem sveitarfélögin annast um tvo þriðju hluta þjónustunnar en ríkið aðeins um þriðjung. Hefur það sannarlega reynst farsælt og líka til þess fallið að dreifa valdi og gera það að verkum að þjónustan lagi sig betur að þörfunum á hverjum stað og í hverju sveitarfélagi.

Því er full ástæða til að harma það að öll þessi áform hafi strandað í tekjustofnanefndinni eins og raunin er. Þó að ég vilji ekki álasa hæstv. félagsmálaráðherra fyrir það verð ég að segja að mér hefur kannski ekki þótt hann vera sá öflugi málsvari sveitarstjórnarstigsins í þessari umræðu sem maður hefði gjarnan óskað sér. Ég eggja hæstv. ráðherra til að láta til sín taka í umræðunni og lýsa skoðun sinni á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, m.a. um leikskólastigið og á þeim yfirlýsingum sem hæstv. fjármálaráðherra var með um hin fjárhagslegu samskipti, hvernig sveitarstjórnirnar ætli að eyða og spenna þeim peningum sem verið er að fá þeim. Ég held að það sé a.m.k. sú lágmarkskrafa sem maður verði að gera til hæstv. ráðherra að hann svari fyrir sveitarstjórnarstigið af þeim myndugleika sem hægt er að ætlast til af einum félagsmálaráðherra en sitji ekki þegjandi hér undir svívirðingum hæstv. fjármálaráðherra Geirs Haardes um samflokksmenn sína, m.a. borgarfulltrúana Alfreð Þorsteinsson og Önnu Kristinsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég hef lýst þeirri skoðun áður og geri það enn að ég tel að þessar deilur um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga séu algerlega á misskilningi byggðar. Þær eru byggðar á þeim grundvallarmisskilningi að Geir Haarde hæstv. fjármálaráðherra eigi að ráða því hvert skattstigið og þjónustustigið er í hverju og einu sveitarfélagi á Íslandi, að hæstv. fjármálaráðherra eigi að ákveða hvað útsvarið megi vera í sveitarfélögunum og hvað ekki. Sú miðstýringarárátta ríkisins að vilja búa til eitt landsútsvar, eina meðaltalsprósentu sem öll sveitarfélög í landinu skuli laga sig að, hið eina sanna meðaltalsríkisútsvar, hefur leitt alla umfjöllun um sveitarstjórnarstigið í þær ógöngur sem það núna er. Hún hefur varnað því að hér gæti orðið sú nauðsynlega þróun á sveitarstjórnarstiginu sem við þurfum að sjá. Auðvitað varðar hæstv. fjármálaráðherra, Geir Haarde, ekkert um hvert útsvarið er í hverju og einu sveitarfélagi. Það er bara ekki málefni hæstv. fjármálaráðherra eða hins háa Alþingis. Útsvar í einu sveitarfélagi stendur á milli íbúa þess sveitarfélags og viðkomandi sveitarstjórnar. Hver og ein sveitarstjórn á að mínu viti að vera frjáls að því að leggja á það útsvar sem hún telur þurfa til að standa undir þeirri þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu. Íbúarnir í því sveitarfélagi segja skoðun sína á þeim ákvörðunum sveitarstjórnarinnar í almennum kosningum til sveitarstjórna og fella sveitarstjórnir ef þær ganga óhóflega langt í skattheimtu.

Ég tel þó að til greina gæti komið að sveitarstjórnirnar fengju aðhald eins og við þekkjum t.d. vestan hafs, þannig að þær gætu ekki hækkað útsvar nema fá fyrir því samþykki í almennri allsherjaratkvæðagreiðslu. Ég vek t.d. athygli á hugmyndum sem ritstjórn Morgunblaðsins hefur talað fyrir um að sveitarfélögin hefðu svigrúm til að fara í allsherjaratkvæðagreiðslur um að hækka útsvarsgreiðslur til að efla grunnskólann og aðstöðuna í grunnskólanum. Það væri þá ákvörðunaratriði manna í hverju sveitarfélagi fyrir sig hversu mikið skattgreiðendurnir eru tilbúnir til að láta renna til skólans, hversu öflugan þeir vilji hafa hann.

Með því að fá sveitarfélögunum það frelsi, þann sjálfsákvörðunarrétt og í raun og veru þann sjálfsagða sjálfsákvörðunarrétt að ráða sjálf tekjustofnum sínum en þurfa að eiga samráð um það við íbúa sína gefst okkur miklu betra tækifæri til að þróa og bæta þjónustuna í landinu. Auðvitað eiga það að vera íbúarnir í sveitarfélaginu sem t.d. geta tekið ákvörðun um hvort þeir séu tilbúnir til að greiða hærra útsvar gegn því að hætt verði að innheimta skólagjöld á leikskólastiginu. Það er einföld pólitísk spurning sem snýr að útsvarsgreiðendunum í því sveitarfélagi og þeirri sveitarstjórn sem þar er og þeir aðilar eiga að geta leyst sín í milli. Hæstv. fjármálaráðherra á ekki að ákveða það hér í þröngsýni sinni á Alþingi hvort veita megi þá þjónustu í hinu eða þessu sveitarfélaginu. Þau eiga einfaldlega að vera frjáls að því í samráði við íbúa sína að taka slíkar ákvarðanir.

Ræða hæstv. fjármálaráðherra í dag um yfirlýsingar Reykjavíkurlistans frá því í síðustu viku eru náttúrlega algerlega dæmalausar. Hið farsæla samstarf Framsóknarflokksins, VG og Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur bar í síðustu viku enn einn ríkulega ávöxtinn í skóla- og leikskólamálum í borginni. Í haust var tekin sú ákvörðun og það hafið að veita ókeypis leikskólaþjónustu í þrjár stundir á dag fyrir fimm ára börn og því lýst yfir að því yrði fylgt eftir með frekari skrefum. Á fimmtudaginn var lýsti borgarstjórinn í Reykjavík því yfir með hvaða hætti það yrði gert og leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavík, Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, gerir síðan ágætlega grein fyrir því góða máli í Morgunblaðinu í dag.

Viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við þessum yfirlýsingum hljóta að vekja nokkra athygli því að hæstv. fjármálaráðherra, Geir Haarde, rýkur hér upp. Ég sagði í dag að hann hefði rifið hár sitt og skegg yfir því að nú ætti að fara að létta þessum skólagjöldum, þessum ósanngjarnasta skatti í landinu, leikskólagjöldunum, af barnafjölskyldum í borginni. Það var ekki maklega sagt, því að ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi aðeins getað rifið hár sitt yfir þessu. Hann fór hér mikinn gegn þessum hugmyndum og fjallaði um það hversu ábyrgðarlaus meðferð á fjármunum þetta væri. Verið væri að stilla öðrum sveitarfélögum í landinu upp við vegg og neyða þau til þess að auka útgjöld sín.

Virðulegur forseti. Hér talaði sá hæstv. fjármálaráðherra sem fannst ekkert mál fyrir nokkrum mánuðum að létta af nærri 30 milljörðum í sköttum aðallega auðvitað á hátekjufólki og stóreignamönnum, en sér núna gríðarlegum ofsjónum yfir því að verja eigi um 1 milljarði króna til þess að létta af barnafjölskyldum í borginni ósanngjarnasta skatti á Íslandi, leikskólagjöldunum, skólagjöldunum á fyrsta skólastiginu í opinberri þjónustu. Hvar er nú fjölskyldustefna Sjálfstæðisflokksins? Hvar eru nú hástemmdu ræðurnar Sjálfstæðisflokksins um aðbúnað barnafjölskyldna í landinu og um að efla og treysta hjónabandið sem stofnun? Hvar eru nú ræðurnar um fjölskyldugildin? Þær voru a.m.k. ekki haldnar hér í dag heldur bara bölsótast yfir því af hæstv. fjármálaráðherra að barnafjölskyldur í Reykjavík fái þessa miklu búbót sem getur numið á þriðja hundrað þús. kr. fyrir eina fjölskyldu með eitt barn og enn hærri upphæðum þar sem fleiri en eitt barn eru á leikskóla í sömu fjölskyldu.

Það sætir auðvitað furðu að hæstv. fjármálaráðherra sem nýbúinn er að létta hér af erfðasköttum, eignarsköttum, hátekjusköttum og tekjusköttum upp á nærri 30 milljarða kr. skuli telja að þetta verði til að raska stöðugleikanum þegar aðeins brot af þeirri upphæð er tekið og nýtt til þess að skapa hér ókeypis leikskóla í sjö stundir á dag fyrir börnin í Reykjavík.

Ég auglýsi eftir sjónarmiðum hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Magnússonar, til þessa máls. Hvort þingmaður Reykv. n., hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, fagnar þeim skrefum sem verið er að stíga í Reykjavík eða hvort hann andmælir þeim og tekur jafnvel undir með hæstv. fjármálaráðherra um að þetta setji samkomulagið sem kallað er eða þennan áfanga í tekjuskiptingu sveitarfélaganna í eitthvert uppnám.

Ég vil líka spyrja hæstv. félagsmálaráðherra af þessu tilefni, vegna þess að þessi dagur hefur verið, öllum að óvörum, helgaður leikskólanum, hvort hann deili ekki þeim áhyggjum sem fram komu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um að það kunni að vera svo að ekki séu öll sveitarfélög í stakk búin til að veita ókeypis þjónustu af þessu tagi. Hvort hæstv. félagsmálaráðherra telji það ekki áhyggjuefni ef svo er. Hvort við séum ekki sammála um að sú mikilvæga grunnþjónusta, ókeypis leikskóli, sé þess eðlis að það sé þjónusta sem verði að vera í boði í öllum sveitarfélögum á Íslandi. Hvort hæstv. félagsmálaráðherra sjái fyrir sér að það geti gengið þannig til frambúðar að slík þjónusta sé boðin í Reykjavík en hún sé ekki í boði annars staðar á landinu vegna erfiðra aðstæðna. Hvort hæstv. félagsmálaráðherra telji þá ekki að þetta atriði verði að taka upp í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga og í kringum verkaskiptamálin til að tryggja megi að þessi grunnþjónusta við yngstu börnin í skólakerfinu verði örugglega veitt á a.m.k. svipuðum forsendum um land allt.

Um leið og maður hlýtur að samgleðjast barnafjölskyldum og leikskólabörnum í Reykjavík að þessi metnaðarfullu áform eru fram komin, og auðvitað að hluta til komin til framkvæmda frá síðasta hausti, hlýtur maður auðvitað að hafa áhyggjur af því ef það er rétt sem fram kom á landsþingi sveitarfélaga að þessum gæðum verði misskipt um landið og að fjárhagur sumra sveitarfélaga sé með þeim hætti að slíka þjónustu sé ekki hægt að veita þar.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann teldi ekki að um slíka grundvallarþjónustu væri réttast að setja almenn lög á Alþingi og að það gilti nokkuð jafnt þjónustustig fyrir sveitarfélögin öll í þessu efni.

Að síðustu fagna ég því enn einu sinni að hin þröngsýnu sjónarmið Sjálfstæðisflokksins, um að ekki komi til greina að verja fjármunum til að létta af ósanngjörnustu sköttum á Íslandi, leikskólagjöldunum á yngstu börnin, skuli hafa orðið undir. Að í Reykjavík hafi menn þrátt fyrir þröngan fjárhag sveitarfélaganna haft þann kjark, það frumkvæði og pólitíska þor sem þarf til að taka þá grundvallarafstöðu að fyrsta skólastigið eigi að vera gjaldfrjálst og að öll börn eigi að njóta leikskólans með svipuðum hætti og grunnskólans, því að það frábæra starf sem fram fer í leikskólanum er sannarlega grundvöllur að farsæld hvers einstaklings og getur verið honum ómetanlegt veganesti út í lífið og mikilvægt að allir njóti þess óháð efnahag.