131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:01]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ekki er þörf á því að endurtaka það sem fram fór hér við 1. umr. en þá hélt ég nokkuð viðamikla ræðu og fór yfir flest efnissvið málsins. Það sem fyrst og fremst verður til þess að ég kem hér upp er að hæstv. fjármálaráðherra átti orðastað við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og má segja að afar sérkennilegur leikþáttur hafi farið hér fram varðandi það mál sem verið er að ræða. Það er mjög sérstakt að þegar fyrir lágu margar óundirbúnar fyrirspurnir til hæstvirtra ráðherra skyldi hæstv. forseti velja eina fyrirspurn sem tengist því máli sem hér er á dagskrá. Þá lá fyrir að þetta mál yrði rætt, þannig að það er með ólíkindum að það form væri valið á þá umræðu að aðeins tveir þingmenn gætu rætt saman án þess að nokkrir aðrir gætu skipt sér af þeirri umræðu.

Ótal spurningar kviknuðu undir umræðunni, m.a. spurning sem væri eðlilegast að hæstv. fjármálaráðherra svaraði sjálfur. Hæstv. ráðherra er ekki viðstaddur hér, eingöngu hæstv. félagsmálaráðherra, og það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þennan málaflokk og hæstv. félagsmálaráðherra einn á hlýðir. Það segir okkur hluta af þeirri sögu hvernig þessi mál standa milli flokkanna í ríkisstjórninni.

Hæstv. fjármálaráðherra gaf fyllilega í skyn að það samkomulag sem náðst hefði í tekjustofnanefnd væri í uppnámi. Hæstv. ráðherra talaði um að komið hefði verið í bakið á sér með ýmsa þætti. Það er nauðsynlegt að hæstv. félagsmálaráðherra segi okkur það hér í umræðunni hvort ekki sé rétt skilið að þetta samkomulag hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni. Liggur ekki fyrir að ríkisstjórnin muni standa við þær niðurstöður sem þó fengust í tekjustofnanefndinni?

Það er hins vegar líka athyglisvert að velta fyrir sér hvort hæstv. fjármálaráðherra ætlar þá ekki að standa við þann hluta samkomulagsins sem kallar á lagabreytingu, þ.e. þegar breyta þarf 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, þeirri sem tengist breytingum á tekjusköttum eða undanþágu á greiðslu tekjuskatta. Hæstv. ráðherra talaði á þeim nótum að það hefði verið eitthvað allt annað en samið hefði verið um, að sveitarfélögin fengju að halda sjálfsákvörðunarrétti sínum um það hvernig þau færu með tekjur sínar. Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra geti upplýst okkur eitthvað um það hvernig þessi mál standa í ríkisstjórninni og hvort þetta mál sé jafnvel í hreinu uppnámi á milli flokkanna. Nú liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn stendur að því samkomulagi sem orðið hefur í Reykjavíkurborg, innan R-listans, um það hvernig menn ætla að standa að því að lækka gjöld í leikskólum.

Það er greinilegt að þetta hefur farið afskaplega illa í Sjálfstæðisflokkinn og það vekur út af fyrir sig enga undrun að Sjálfstæðisflokkurinn reyni að snúa þessu máli í eitthvað allt annað en það snýst um. Það er eðlilegt ef við lesum t.d. niðurstöðu 19. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var samþykkt svohljóðandi, með leyfi forseta:

„19. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 18. mars 2005, tekur undir bókun stjórnar sambandsins um þá niðurstöðu tekjustofnanefndar að hér sé fyrst og fremst um tímabundna ráðstöfun að ræða sem leiði ekki nema að takmörkuðu leyti til varanlegrar styrkingar á tekjustofnum sveitarfélaga.“

Lokaorð þessarar ályktunar eru, með leyfi forseta:

„Enn fremur verði því markmiði náð sem stefnt var að, að treysta fastan tekjugrunn sveitarfélaga til framtíðar og um leið að leiðrétta þá tekjuskerðingu og útgjaldaaukningu sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir á umliðnum árum.“

Þar með lýkur þeirri ályktun. Það er augljóst mál að innihald þessarar ályktunar er í engu samræmi við málflutning hæstv. fjármálaráðherra og málflutning ýmissa hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem komið hafa trekk í trekk fram og sagt að ekkert væri að í tekjustofnum sveitarfélaga, þar þyrfti raunverulega ekkert að gera. Það er ekkert skrýtið þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins setji upp svona leiksýningu eins og var í byrjun þingfundar í dag þar sem enn á ný var sagt að ekkert væri að tekjustofnum sveitarfélaga. Hæstv. fjármálaráðherra segir að komið hafi verið í bakið á sér með yfirlýsingu Reykjavíkurborgar.

Það hlýtur að vekja upp þá spurningu sem hæstv. félagsmálaráðherra getur hugsanlega svarað, hvort fulltrúar hæstv. fjármálaráðherra í samninganefndinni eða tekjustofnanefndinni hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera eða hafi ekki flutt hæstv. fjármálaráðherra allar þær upplýsingar sem þar komu fram. Það er auðvitað augljóst mál að með bara skipun nefndarinnar var viðurkennt að vandi væri í fjármálum sveitarfélaganna. Í öðru lagi er líka viðurkennt með niðurstöðunni, þó að hún sé ekki nema áfangi á þessari leið, að þarna hefði verið vandi til staðar. Þess vegna er afar sérkennilegt þegar hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir að komið hafi verið í bakið á sér og að greinilega væri ekki sá vandi fyrir hendi sem honum hefði verið sagt að væri til staðar.

Það hlýtur að vekja þá spurningu hvort samningamenn ríkisins eða fulltrúar fjármálaráðuneytisins í samningunum hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Það kallar upp í hugann minningar um það að fulltrúar fjármálaráðuneytisins hafa verið að gera ýmsa aðra samninga. Við höfum séð það við gerð fjárlaga að menn hafa oft og tíðum áætlað að kjarasamningar kostuðu ákveðna fjármuni. Niðurstaðan hefur yfirleitt verið allt önnur. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig sé reiknað í fjármálaráðuneytinu. Ef þetta er enn eitt dæmið um það að menn viti ekki hvað verið er að gera þegar þeir ganga frá samningum er það mjög alvarlegt mál.

Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra geri okkur grein fyrir því í lok umræðunnar hvernig þessum málum er háttað í ríkisstjórninni. Ef maður á að taka fullt mark á því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði er það grafalvarlegt mál því að ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að í raun og veru væri niðurstaða tekjustofnanefndar í uppnámi eftir yfirlýsingu frá Reykjavíkurborg.