131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:56]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort sá er hér stendur sé tilbúinn til að gefa yfirlýsingu um það að rétt sé að öll börn njóti þessa. Ég lýsti því yfir áðan hver stefna flokks míns er. Ég lýsti því líka yfir að sú stefna er ekkert sérstaklega tiltekin í stjórnarsáttmála. Ég hefði talið heppilegra, hæstv. forseti, að ríki og sveitarfélög tækju upp viðræður um þetta mál og kæmust að einhverri niðurstöðu um það. Nú hefur hins vegar Reykjavíkurborg tekið af skarið og ég fagna því fyrir hönd foreldra í Reykjavík en það breytir ekki hinu að afar mörg sveitarfélög í landinu eru ekki í stakk búin fjárhagslega til að taka þetta verkefni upp hjá sjálfum sér og standa ein straum af því.

Það verður auðvitað bara að koma í ljós, hæstv. forseti, hvernig sveitarfélögin spila úr þessu. Það liggur líka fyrir að það er ekkert vilyrði af hálfu ríkisins hvað þetta mál varðar.