131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:36]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að færa hér í tal atvik sem átti sér stað í gær undir liðnum um störf þingsins. Þar hljóp forseti þingsins algerlega á sig þegar hann meinaði Frjálslynda flokknum að beina fyrirspurn til hæstvirtra ráðherra og bar því við að engin fyrirspurn hefði borist frá Frjálslynda flokknum. Það er alrangt. Það má sjá afrit af tölvuskeyti sem ég sendi skrifstofustjóra þingsins, Helga Bernódussyni, á heimasíðu minni, sigurjon.is, og þá sér maður að þetta er einfaldlega rangt. Ég trúði því að prúðmennið Halldór Blöndal, hæstv. forseti þingsins, mundi nota tækifærið í upphafi þingfundar og biðja mig afsökunar á þessum misskilningi. Mér finnst ég eiga heimtingu á því að hann leiðrétti þetta, segi einfaldlega frá því að hér hafi orðið mistök og sjái svo til þess að sú fyrirspurn sem ég ætlaði að beina til hæstv. ráðherra komist sem fyrst á dagskrá. Ég hefði talið það í raun hið eina rétta í stöðunni.

Hvað varðar svör og ekki svör get ég tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég tel að hæstv. ráðherrar eigi að vanda svör sín. Ég hef tekið eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra lætur svo lítið að svara. Það eru aðrir sem sjá ekki einu sinni sóma sinn í því að svara erindum. Ég nefni hæstv. utanríkisráðherra. Fyrirspurn frá mér til hans hefur legið fyrir í heila fjóra mánuði og hann sér ekki sóma sinn í að svara. Mér finnst það með ólíkindum. Þess vegna þakka ég fyrir þó að svörin séu ekki ætíð merkileg hjá hæstv. iðnaðarráðherra að hún sjái þó sóma sinn í því að svara þeim fyrirspurnum sem beint er til hennar.