131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[13:50]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins Málið er á þskj. 1003 og er 659. mál þingsins.

Í frumvarpinu er lagt til að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði ekki lengur skylt að starfrækja tryggingardeild útflutningslána og að ríkissjóður skuli ekki bera ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Þó munu ákvæði frumvarpsins, ef það verður að lögum, ekki eiga við um tryggingar eða ábyrgðir sem veittar hafa verið af tryggingardeild útflutningslána í samræmi við II. kafla núgildandi laga um Nýsköpunarsjóðinn.

Tryggingardeild útflutningslána var komið á fót með lögum nr. 60/1970, um tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Hlutverk tryggingardeildar útflutningslána skyldi annars vegar vera að tryggja lán er lánastofnanir veittu útflytjendum vöru eða þjónustu til þess að þeir gætu fjármagnað útflutningslán til handa erlendum kaupendum og hins vegar að tryggja kröfu útflytjenda á hendur erlendum kaupendum. Frá árinu 1997 hefur deildin verið rekin sem hluti af starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Fyrri hluta árs 2002 var ákveðið að stofna til samstarfsverkefnis vegna tryggingardeildar útflutningslána til þriggja ára. Þátttakendur í samstarfsverkefninu voru iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Samningur um samstarfsverkefnið tók gildi hinn 15. apríl 2002 og rennur út 15. apríl 2005. Samkvæmt samningnum var 8 millj. kr. varið árlega til að efla og kynna starfsemi deildarinnar. Var m.a. ráðinn starfsmaður í fullt starf til Nýsköpunarsjóðs til að sinna starfsemi tryggingardeildarinnar.

Þrátt fyrir að haldnir hafi verið margir kynningarfundir um tryggingardeild útflutningslána, deildin kynnt í einstökum fyrirtækjum og athygli vakin á starfseminni í fjölmiðlum hefur ekki verið mikill áhugi meðal útflutningsfyrirtækja á því að nýta sér þjónustuna. Rekstur deildarinnar hefur ekki gengið sem skyldi, hafa tekjur tryggingardeildarinnar verið litlar og afkoma slæm. Þá hafa miklar ábyrgðir fallið á tryggingardeild útflutningslána á undanförnum missirum sem ríkissjóður hefur þurft að greiða.

Fyrir liggur að þeir sem lögðu fram fjármuni til samstarfsverkefnisins eru ekki tilbúnir til að halda því áfram. Því er ekki talið réttlætanlegt að viðhalda rekstri tryggingardeildarinnar og lagt til að starfsemi deildarinnar verði lögð niður og lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins breytt til samræmis. Gert er ráð fyrir að Ríkisábyrgðasjóður taki að sér umsýslu á þeim tryggingum og ábyrgðum sem eru útistandandi.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.