131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[14:22]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja sem svo að hæstv. viðskiptaráðherra hafi ekki bætt miklu við í röksemdapúkkið í þessari seinni ræðu sinni. Þó dró hæstv. ráðherra það fram að tekjur deildarinnar hefðu ekki verið miklar undanfarið, árin 2003 og 2004 væntanlega einhver hagnaður þó, tap 2002 og einhver ár þar á undan.

Ég eiginlega nálgast þetta mál frekar út frá því að hér sé um að ræða einhvers konar aðstoð við útflutningsfyrirtæki til þess að vinna sér nýja markaði, jafnvel að fara inn á markaði þar sem pólitískur eða efnahagslegur stöðugleiki er ekki mikill en það sé þó a.m.k. vel þess virði að reyna að sækja fram á nýjum mörkuðum. Þess vegna er þetta fyrst og fremst hagnaður samfélagsins en ekki þessarar tilteknu tryggingardeildar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið ábyrgðist deildin útflutning upp á 1,1 milljarð kr. samanlagt á árunum 2003 og 2004, þ.e. útflutningsverðmæti upp á 1,1 milljarð kr. Það eru feikilegir hagsmunir. Það er einnig sagt að þessir samningar hefðu sennilega ekki komist á ef ekki hefði verið fyrir tilstilli þessarar deildar. Þess vegna vil ég a.m.k. setja það inn í þessa umræðu að við horfum ekki á tekjur tryggingardeildarinnar, heldur fyrst og fremst hagsmuni samfélagsins. Það er það sem við verðum að skoða mjög vandlega og ekki kannski síst þá í því ljósi að vinnubrögð hafi ekki verið sem skyldi fram undir árið 2003. Við þurfum þá að gefa þessu einhvern tíma.

Ég gat ekki heyrt betur en að hæstv. viðskiptaráðherra hefði í þessu máli einhverja eftirsjá, a.m.k. skynjaði ég það í ræðu hennar og gat ekki skýrt hana öðruvísi en svo. (Forseti hringir.) Ég vildi því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort þessi 1,1 milljarður 2003 og 2004 skipti ekki verulegu máli, virðulegi forseti.