131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[14:31]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftirspurnin var lítil, starfsemin kostar peninga, það var tap á henni og þess vegna hættum við. Maður hugsar nokkur ár aftur í tímann og veltir fyrir sér vinnunni við að reyna að fá stóriðjufyrirtæki til Íslands. Þeim störfum sem í því voru, þeim kostnaði sem því fylgdi, hve eftirspurnin var lítil og hve tapið var mikið á þeirri starfsemi meðan ekkert gerðist. Er ekki möguleiki fyrir okkur að læra einmitt svolítið af því, að það gæti þurft þolgæði, það gæti þurft þolinmæði í slíku starfi vegna þess að það þurfi ekki að gerast svo ýkja stórir eða miklir hlutir til að slíkur rekstur fari að bera sig og til að slíkur rekstur fari að skila verulega miklum samfélagslegum ávinningi.

Mér finnst hæstv. ráðherra gefast allt of snemma upp. Ef kostnaðurinn við að reka þetta innan Nýsköpunarsjóðs eru örfáar milljónir á ári og hægt er að tryggja faglegt starf og faglegt mat á þeim sem sækja þar um og reyna að stýra áhættu eins og best þekkist í dag get ég ekki skilið ástæðu þess að leggja tryggingardeild útflutningslána af og þá aðstoð sem nýjum fyrirtækjum eða eldri fyrirtækjum á markaði stendur til boða. Kostnaðurinn við þetta hleypur ekki á stórum tölum og það þarf, eins og ég sagði áður, ekki mikið að gerast í útflutningi til nýrra markaða eða til nýrra viðskiptavina, sem geta svo staðið í mörg ár þar á eftir, til að greiða þann kostnað. Ég neita að trúa því að eina leiðin sé að leggja þetta niður vegna þess að tímabundið gangi þetta ekki nægjanlega vel.

Megintapið, eins og fram kemur í greinargerðinni, átti sér stað áður en farið var að beita nútímalegum faglegum áhættustýringarreglum við að samþykkja ábyrgðir. Eftir að byrjað var á því horfa menn ekki fram á mikið tap á þessu. Ég hefði því talið að það væri allt í lagi fyrir ríkissjóð að bera ákveðna ábyrgð áfram og styðja við fyrirtæki í útflutningi því það er full þörf á því að gera það en ekki bara við stóriðju.