131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[14:55]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsnefnd hefur fjallað um frumvarp um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem miðar að því að lög um hann skuli lögð af frá 1. október nk. samanber breytingartillögu sjávarútvegsnefndar. Er það stytting á gildistíma laganna en þau áttu að gilda til 31. desember 2009.

Því ber einnig að fagna að eignum sjóðsins skuli ráðstafað til verkefna sjávarútvegsins. Andvirði þeirra átti í upphafi að verja til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar en sjávarútvegsnefnd samþykkti að taka út textann „á vegum Hafrannsóknastofnunar“ og taldi eðlilegt að stjórn verkefnasjóðs hefði ákvörðunarvald með ráðstöfun á andvirði Þróunarsjóðs.

Á Alþingi og í sjávarútvegnefnd hefur mikið verið rætt um hafrannsóknir og hve mikilvægt sé að hafa fjármagn til enn frekari rannsókna. Því er ráðstöfun eigna sjóðsins mjög mikilvæg fyrir frekari rannsóknir en reikna má með að eigið fé sjóðsins verði í kringum 500 millj. Sú upphæð getur þó breyst eitthvað þar sem ekki er komið lokauppgjör hjá sjóðnum.

Sjávarútvegsnefnd fékk til sín fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins, Arndísi Steinþórsdóttur, þar sem hún gerði okkur grein fyrir eignum sjóðsins miðað við síðasta uppgjör og ég ætla aðeins að gera grein fyrir þeim upplýsingum sem þar komu fram. Það eru 800 millj. í sjóði, útlán eru 1.400 millj., þar af 900 millj. óverðtryggð lán með 6% vöxtum og 500 millj. dollara- og/eða evrulán með 1% álag á Libor. Sjóðurinn á sex fasteignir og þær eru metnar á 130 millj. Skuldir sjóðsins eru um 1.700–1.800 millj.

Hafrannsóknir eru grunnurinn að því að byggja upp þekkingu um hafið og lífríki þess, sérstaklega til þess að geta metið hvernig hagkvæmast er og skynsamlegast að nýta auðlindir hafsins. Það er mikilvægt að fá viðbótarfjármagn í rannsóknarstarfsemina. Hlutverk Þróunarsjóðsins var að veita styrki til úreldingar fiskiskipa sem og að kaupa eignir sem nýttar voru til fiskvinnslu og framleiðslufyrirtæki sem þeim fylgdu en sjóðurinn hefur starfað í rúm 10 ár. Sjóðurinn hafði einnig heimild til þess að vinna með lánastofnunum við fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja, enda um samræmdar aðgerðir að ræða. Síðan var sjóðnum falið að fjármagna að stórum hluta kaup á nýju rannsóknarskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.

Fjármögnun á starfsemi Þróunarsjóðs byggðist á gjöldum sem lögð voru á eigendur fiskiskipa og um tíma eigendur fiskvinnsluhúsa. Þær 500 millj. sem komu úr Þróunarsjóðnum til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins munu nýtast til enn frekari hafrannsókna og vonandi skila sér til þeirra er buðu upp á þennan sjóð með greiðslu gjalda í hann.

Ég ætla að kynna nefndarálitið og breytingartillögur frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar: Þetta er nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilhjálm Egilsson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi fiskeldisstöðva og Hafrannsóknastofnuninni.

Með frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verði styttur þannig að lögin falli úr gildi 1. júlí á þessu ári. Er frumvarpið lagt fram í kjölfar þess að skylda til greiðslu í sjóðinn var felld niður samhliða upptöku veiðigjalds, sbr. lög nr. 51/2004. Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þá leggur meiri hlutinn til að lögin falli úr gildi 1. október 2005 í stað 1. júlí til að tryggt sé að nægilegur tími gefist til að ljúka uppgjöri sjóðsins.

Í samræmi við framangreint leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.

Undir álitið rita Guðjón Hjörleifsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Hallvarðsson, Magnús Stefánsson og Birkir J. Jónsson.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.