131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:00]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar. Ekki náðist samkomulag í nefndinni um að skila einu nefndaráliti í þessu máli og strandaði þar á einu atriði. Verð ég að lýsa furðu minni á að á því atriði skyldi stranda miðað við þá forsögu sem það mál hefur í sölum Alþingis. Ég fer betur yfir það á eftir en sný mér að nefndarálitinu.

Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir að gildistími laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verði styttur þannig að lögin falli úr gildi 1. júlí nk. Frumvarpið er angi af þeim breytingum sem gerðar hafa verið samhliða upptöku veiðigjalds og tilfærslu gjalda í því sambandi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og að andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Á 125. löggjafarþingi, 1999–2000, samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar (þskj. 1186) sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Í ljósi þess hve Alþingi hefur með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til að ráðstafa a.m.k. hluta af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til þessara verkefna telur minni hlutinn einsýnt að Alþingi hrindi þeim vilja sínum í framkvæmd við afgreiðslu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar. Er það í raun ámælisvert hvernig ríkisstjórnin hefur með aðgerðaleysi sínu frá því að framangreind þingsályktunartillaga var samþykkt kosið að virða vilja Alþingis að vettugi í þessu máli. Er framlagning þessa frumvarps nú enn fremur staðfesting á því að aldrei hefur staðið til af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra að virða vilja Alþingis í málinu. Hvað sem því líður liggur nú beint við að Alþingi árétti og staðfesti vilja sinn með skýrum og skuldbindandi hætti. Gerir minni hlutinn það því að tillögu sinni að hluti eigna Þróunarsjóðsins renni til varðveislu gamalla báta og skipa.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins hafði m.a. það hlutverk að úrelda gömul fiskiskip og er alveg óhætt að fullyrða að hann hafi þannig flýtt fyrir förgun margra gamalla skipa sem ella hefði verið talin ástæða til að vernda. Reglur um úreldingarframlag úr Þróunarsjóði gerðu skýrar kröfur um að bátum sem fengu úreldingargreiðslur skyldi fargað á þann hátt að ekki væri hægt að draga þá á flot að nýju. Bátarnir voru því annaðhvort bútaðir niður eða þeir brenndir. Er því vel við hæfi að hluti fjármuna sjóðsins verði nú notaðir til varðveislu gamalla báta og skipa. Minni hlutinn gerir þó eftir sem áður ráð fyrir að meginhluti andvirðis eigna sjóðsins renni til hafrannsókna enda eru mörg brýn verkefni á því sviði sem bíða úrlausnar. Í því sambandi er minni hlutinn sammála því áliti meiri hluta nefndarinnar að ástæðulaust sé að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þá er minni hlutinn samþykkur breytingartillögu meiri hlutans um að lögin falli úr gildi 1. október 2005 í stað 1. júlí til að tryggt sé að nægilegur tími gefist til að ljúka uppgjöri sjóðsins.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu miklir fjármunir munu standa eftir þegar sjóðurinn verður gerður upp, en í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kom fram að áætlað markaðsvirði eigna Þróunarsjóðs sé um 300–400 millj. kr. Nú er hins vegar talið að markaðsvirðið gæti orðið nokkru hærra eða allt að 500–600 millj. kr. vegna ýmissa ytri skilyrða sem hafa breyst frá því að ráðuneytið lagði mat á virði sjóðsins og því gerir minni hlutinn það að tillögu sinni að kveðið verði á um að 400 millj. kr. af virði Þróunarsjóðsins renni til hafrannsókna en það sem eftir standi við endanlegt uppgjör renni í ríkissjóð og Alþingi og fjárlaganefnd þingsins verði falið við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 að gera tillögur um úthlutun þessara fjármuna til verkefna sem tengjast varðveislu gamalla báta og skipa. Í samræmi við framangreint leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu 400 millj. kr. af eignum sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Andvirði eigna sjóðsins sem eru umfram 400 millj. kr. skal renna í ríkissjóð og því ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Jóhann Ársælsson.

Hv. þm. Kristján L. Möller var fjarstaddur þegar málið var tekið út úr nefndinni en er samþykkur efni þessa álits.

Herra forseti. Til viðbótar við álitið eins og það liggur fyrir langar mig aðeins að fara yfir hvernig það getur gerst að Alþingi Íslendinga álykti um einhvern ákveðinn hlut — sú ályktun er borin upp af þingnefnd, sjávarútvegsnefnd í þessu tilviki, og samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi með 49 greiddum atkvæðum — en að slík ályktun komist ekki til framkvæmda, að ráðherra hunsi í raun vilja Alþingis. Þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram frumvarp um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem þingsályktunin gerði ráð fyrir að nýttur yrði að hluta til að varðveita gömul skip og báta, hunsar hæstv. ráðherra algjörlega þann skýra vilja Alþingis að þessi sjóður eigi að taka þátt í því verkefni.

Í sjávarútvegsnefnd á 125. þingi áttu sæti talsvert margir hv. þingmenn sem nú sitja á Alþingi. Ég skoðaði það, virðulegi forseti, hvernig atkvæðagreiðslan um þingsályktunartillöguna fór fram og mig langar í stuttu máli að gera aðeins grein fyrir því.

Eins og ég sagði áðan sögðu 49 hv. þingmenn já. 15 þeirra eru hættir á Alþingi. Kosningar hafa síðan farið fram og menn hafa hætt af eigin hvötum. Eftir eru 34 hv. þingmenn sem sögðu já við þingsályktunartillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í að fjármagna varðveislu báta og skipa og sitja enn á Alþingi.

Á þessari stundu ætla ég ekki að lesa upp nöfn þeirra hv. þingmanna sem samþykktu þessa þingsályktun. Þeir vita sjálfir hverjir það eru og hverjir ekki, en enginn greiddi atkvæði á móti tillögunni. Vilji Alþingis var því algjörlega skýr. Það var óumdeildur vilji Alþingis að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins færi í það verkefni að varðveita gamla báta og gömul skip.

Það er ekkert undarlegt í ljósi þess að þróunarsjóðurinn tók á sínum tíma þátt í að úrelda og eyðileggja 459 skip á árunum 1994–1997. Þessir bátar voru afskráðir fyrir atbeina þróunarsjóðsins. Samtals voru þessi skip 7.800 brúttótonn eða um 7% af þáverandi fiskiskipaflota landsins. Hvarflar það að nokkrum manni að menn hafi farið að úrelda nýjustu skipin? Nei, það voru gamlir fiskibátar, að mestu leyti vertíðarbátar og aðrir slíkir, sem farið var í að úrelda og bátar sem annars hefðu örugglega komið upp hugmyndir um að varðveita til að sýna nýjum kynslóðum hvernig þessir bátar voru fyrr á tímum. Sem betur fer og fyrir framsýni margra hist og her um landið eru enn þá til bátar sem full ástæða er til að varðveita. Við getum nefnt Sigurfara á Akranesi. Við getum nefnt bátana sem standa uppi í Síldarminjasafninu á Siglufirði og fleiri slík skip.

Það rignir inn beiðnum til fjárlaganefndar Alþingis um styrki til þess að gera upp gamla báta sem mönnum er umhugað um að glatist ekki og týnist ekki. Fjárlaganefnd hefur haft afskaplega litla fjármuni til að veita með beinum hætti í það að varðveita þessa báta. En Alþingi var búið að taka afstöðu. Alþingi sagði: Við skulum gera átak í því að varðveita þessa báta og þessi skip, og Alþingi benti á hvar fjármunirnir voru. Það hefði nú verið betra að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri hér til að útlista fyrir okkur alþingismönnum hvernig á því stendur að framkvæmdarvaldið hunsar vilja Alþingis með þeim hætti sem hér er augljóslega gert. Vegna þess að það getur ekki verið nein önnur skýring á því að leggja fram frumvarp um að leggja niður Þróunarsjóð og að andvirðið renni í allt annað en að varðveita báta og skip en sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætli sér að hunsa með öllu vilja Alþingis.

Ég heiti á þessa 34 þingmenn, af þeim eru sjö núverandi hæstv. ráðherrar, að þegar að því kemur að greiða atkvæði um breytingartillögu minni hluta sjávarútvegsnefndar í sölum Alþingis, standi þeir við það sem þeir greiddu atkvæði um þegar lögð var fram þingsályktunartillaga á 125. löggjafarþingi með mjög skýrum texta sem segir nákvæmlega hvað það er sem menn samþykktu þar. Það getur enginn borið því við að hann hafi ekki áttað sig á hvað hann var að samþykkja. Þetta er algjörlega skýrt. Að þeir sömu hv. þingmenn greiði nú atkvæði með sama hætti og tryggi að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins renni til þessa verkefnis sem Alþingi er með skýrum hætti búið að lýsa vilja sínum til.