131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum sammála um að mikil þörf er fyrir fjármagn í hafrannsóknir og árlegar umræður hér um það mál og í orði kveðnu mikil samstaða, en þegar á hólminn er komið er naumt skammtað í fjárlögunum eins og kunnugt er og á köflum hafa menn varla getað haldið úti skipakostinum sem tiltækur er til þeirra rannsókna.

Vandinn er sá í þessu tilviki að Alþingi er búið að móta stefnu. Þó að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson geti vel haft þá skoðun að betra sé að reyna að vinna því máli brautargengi með öðrum hætti, þ.e. að sækja á fjárlög eftir fjármunum í varðveislu skipa, þá var þessi stefna mótuð. Það er uppeldislegt atriði að láta stjórnvöld ekki komast upp með að hafa vilja Alþingis algerlega að engu eins og hér hefur bersýnilega verið gert samfellt í ein fimm ár. Mér finnst að menn eigi að taka upp þykkjuna fyrir hönd Alþingis í slíkum tilvikum og í öllu falli sleppa ekki hendinni af fjármununum, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, fyrr en menn væru búnir að sýna lit í þeim efnum eða vilja í verki að setja fjárveitingar t.d. á næstu fjárlögum í hitt verkefnið.

Mér fyndist ekkert að því að áfram væru atvinnuvegatengsl við málaflokkinn. Það færi vel á því t.d. að ákveðnum árlegum fjármunum væri ráðstafað úr sjóði til að styrkja slík verkefni þannig að menn sýndu í því efni hug sinn til málsins úr atvinnugreininni líka.

Ég held að ráðlegast væri að fresta afgreiðslu málsins eða depónera sjóðnum, skulum við segja, og láta á það reyna við afgreiðslu fjárlaga næsta haust hvort eitthvað yrði gert sem manndómsbragur væri að í þessum efnum. Og ef mönnum sýndist svo að þeim málum væri vel fyrir komið að láta þetta þá renna sína leið til hafrannsókna.

Svo er auðvitað á það að að líta að hér er um að ræða ráðstöfun fjármuna í eitt skipti. Hafrannsóknir eru jú árlegt viðfangsefni þannig að þegar frá líður munar engin ósköp um þessa fjármuni (Forseti hringir.) í þá miklu púllíu.