131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:27]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst að árið 2000 hafi menn rætt um það í þingsölum hvort sjávarútvegsráðherra eða menntamálaráðherra ætti að sjá um málið, varðveislu gamalla skipa. Þetta er náttúrlega líka menningarmál.

Það er alveg rétt að það eru ekki miklir fjármunir á ári hverju sem verið er að veita í endurbyggingu gamalla skipa, þetta eru 20 millj. á ári sem er mjög lítið. Ég held að þegar við ræðum um stórar tölur eins og með kútter Sigurfara, það kostar um 70–80 millj. að gera hann upp, þá verður þetta bara að vera sjálfstætt mál og sjálfstætt verkefni sem yrði kannski að dreifa á þrjú, fjögur ár.

Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði að 49 aðilar á hinu háa Alþingi hafi samþykkt að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar. Af þeim eru 34 eftir á þingi og það þarf ekki nema 32 til að mynda meiri hluta þannig að það á kannski eftir að reyna á þetta við atkvæðagreiðslu við 3. umr. og ég reikna með að umræðan verði tekin þá.