131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:28]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir andsvar hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar sá ég mig neyddan til að koma aftur upp og fara aðeins betur yfir málið, því ég verð að segja að ég er svolítið undrandi á því að hv. þingmaður vísi því til ráðherra hvort hann eigi að fara eftir því sem Alþingi hefur samþykkt eða ekki og telur eðlilegt að við á Alþingi beygjum okkur undir það ef ráðherra vill hunsa vilja Alþingis og gera eitthvað annað en samþykkt hefur verið. Þá eigum við bara að beygja okkur undir bununa eins og sagt er.

Ég vil byrja á að taka undir kröfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki þátt í umræðunni áður en yfir lýkur og held að nægjanlegt væri að hann gerði það við 3. umr. og færi aðeins yfir af hverju hann hefur ekki aðhafst neitt í sambandi við þá þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt.

Ég ætla aðeins að fara yfir feril málsins. Fyrst var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og flutningsmenn voru hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Ljóst er að það var nokkurn veginn þverpólitískur stuðningur við að breyta lögum um þróunarsjóð þannig að honum beri að gera það sem segir í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.“

Þarna er sem sagt lagt fram frumvarp til laga á Alþingi. Það fer til 1. umr. og er afgreitt til hv. sjávarútvegsnefndar eins og venjan er með svona frumvörp. Sjávarútvegsnefnd fer yfir málið og ræðir það á fundum sínum. Út úr því kemur einhverra hluta vegna að frumvarpinu sem slíku er ekki hleypt hér til 2. umr., heldur verður sátt um það í sjávarútvegsnefnd að breyta því í þingsályktunartillögu. Öll sjávarútvegsnefnd þingsins leggur þingsályktunartillöguna sameiginlega fram, tekur ákvörðun um að breyta frumvarpi til laga og koma með það hér inn til Alþingis í formi þingsályktunartillögu og væntanlega með það í huga að eitthvað verði með hana gert.

Í sjávarútvegsnefnd á þeim tíma sátu hv. þm. Árni R. Árnason, Árni Steinar Jóhannsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson, Kristinn H. Gunnarsson, Svanfríður Jónasdóttir og Vilhjálmur Egilsson. Talsvert af þessum þingmönnum situr enn þá á þingi og muna þeir þingmenn væntanlega eftir þessari umræðu og hvað þarna fór fram, enda alveg ljóst að þegar málið kemur inn til þingsins verður ekki um það mikil umræða og meira að segja mælt með því að málið verði í raun og veru ekki sent til nefndarinnar aftur, það sé búið að hljóta nefndarlega afgreiðslu og menn vilji bara afgreiða málið fljótt og vel því að um það sé mikil sátt innan allra flokka.

Þegar greidd eru atkvæði um tillöguna til þingsályktunar liggur alveg fyrir að nánast allir hv. þingmenn sem í salnum voru greiddu atkvæði með henni og sögðu já. Einn hv. þingmaður, Pétur H. Blöndal, greiddi ekki atkvæði og nokkrir þingmenn voru fjarstaddir. Ég held að ég eyði ekkert tíma hv. þingmanna í að lesa upp nöfn þeirra þingmanna sem sögðu já því að ég hef ekki trú á öðru en að þeir muni eftir því sjálfir og muni halda sig við þá afstöðu sem þeir lýstu til þessa máls.

Ég lít á það sem hrein svik við þá sem standa að því að vernda gömul skip og báta að drepa málinu á dreif með þeim hætti sem búið er að gera frá því að þessi tillaga var samþykkt á árinu 2000 og sérstaklega það að ætla síðan að hunsa hana alveg með því að koma með lög um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins án þess að partur af þeim fjármunum sem þar eru inni gangi til þessa málefnis sem Alþingi hefur án nokkurs vafa með mjög auknum meiri hluta tekið ákvörðun um að skuli fara fram með þeim hætti sem áður er lýst. Ég trúi því ekki að alþingismenn séu þær lyddur að þeir láti það yfir sig ganga að framkvæmdarvaldið komi svona fram. Ef það er hægt nægir framkvæmdarvaldinu, þegar fram koma þingsályktunartillögur sem Alþingi samþykkir og beinir til ríkisstjórnar um að framkvæma ákveðna hluti, að bíða í 2–3 ár, 4–5 ár, gera ekki neitt og treysta því síðan að staðfesta þeirra sem sögðu já á þeim tíma sé þrotin og að þeir muni segja nei eftir svona langan tíma. Þannig komast hæstv. ráðherrarnir þá upp með það sem þeir vilja gera en ekki það sem Alþingi leggur þeim fyrir að gera. Þá er illa komið fyrir Alþingi.