131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

194. mál
[15:34]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt hvað okkur miðar þrátt fyrir allt í þingstörfunum. Hér gefst loksins tækifæri til að mæla fyrir þessu frumvarpi um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem er 194. mál og var lagt hér fram á haustönninni í ákveðnum skyldleika við skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Efni frumvarpsins er í einfaldleika sínum það að heimildir sveitarfélaganna til að leggja á útsvar aukist að sama skapi og ríkið ákvað í desembermánuði sl. að lækka tekjuskattsálagningu sína, þ.e. að í stað þess að hámarksútsvarsálagning geti numið 13,03% megi hún fara í 14,03% þannig að heildarhámarksskattbyrðin haldist þá óbreytt og það svigrúm sem skapast með lækkun ríkisvaldsins færist yfir til sveitarfélaganna.

Flutningsmenn að þessu frumvarpi eru ásamt mér hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Þetta frumvarp er í fullu gildi og ekki síst nú þegar hillir undir niðurstöðu eða svokallaða niðurstöðu í tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þeim skilningi að starfshópur eða nefnd, tekjustofnanefnd, hefur nú skilað áliti, klofin að vísu, þar sem lögð er til lítils háttar breyting á tekjulegum málefnum sveitarfélaganna, varanleg úrlausn upp á 600–800 millj. inn í framtíðina en síðan tímabundnar sporslur sem menn leika sér að að reikna allt upp í 9 milljarða kr. á 3–4 árum. Það eru þó falsreikningar því að þar er að hluta til um að ræða áframhaldandi þátttöku ríkisins í kostnaði við sameiginleg átaksverkefni hverjum fylgja auðvitað útgjöld á móti, svo sem eins og að halda áfram að reyna að koma frárennslismálum í landinu í viðunandi horf.

Það er algerlega fráleitt að setja dæmið þannig upp að með slíku sé verið að færa sveitarfélögunum nettótekjur sem þau fái til ráðstöfunar í sinn almenna rekstur. Þar er um að ræða að ríkið haldi áfram að taka þátt í kostnaði við mjög útgjaldasamar framkvæmdir. Og hvar skyldu menn enn eiga eftir að koma þessum frárennslismálum í viðunandi horf? Jú, ætli það sé ekki einmitt þar sem það er dýrast að leysa úr vandanum. Það er alveg ótrúlegt hvað menn ganga langt í því að reyna að reikna sér slíkt til tekna.

Staðreyndin er sú að um 65% af tekjum sveitarfélaganna eða nálægt því hlutfalli, ég man það ekki nákvæmlega, koma frá útsvarinu. Útsvarið er langstærsti einstaki tekjustofn sveitarfélaganna. Af því leiðir að það er erfitt að gera mikið miðað við óbreytta tekjumöguleika sveitarfélaga sem á að muna um að einhverju ráði nema að notast þá við útsvarið, a.m.k. að hluta til. Ef ekki er vilji til þess að sveitarfélögin fái hlutdeild í nýjum tekjustofnum, í breiðari tekjustofnum en þau hafa í dag, sem eru fyrst og fremst útsvarið og síðan þjónustugjöld til að mæta kostnaði af þeirri starfsemi, þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita, ja, þá er fátt hægt að gera nema hreyfa útsvarinu. Útsvarið er hinn eiginlegi skattstofn sveitarfélaganna sem skilar að uppistöðu til þeim tekjum sem sveitarfélögin hafa til sjálfstæðrar ráðstöfunar. Það má ekki rugla saman síðan þeim þjónustugjöldum sem lögð eru á vegna skilgreindrar veittrar þjónustu og er óheimilt að hafa hærri en sem nemur kostnaðinum við þjónustuna. Það er að sjálfsögðu ekki eiginlegur skattstofn í þeim skilningi að sveitarfélögin hafi þá fjármálalegt sjálfstæði í krafti hans. Þeim mun mikilvægara er útsvarið sem þetta er veruleikinn.

Heildarálagningarhlutfall mundi samkvæmt þessu frumvarpi, ef það yrði lögfest og sveitarfélögin fengju þessa viðbótarheimild, halda áfram að vera 38,78%. Það yrði því ekki um neina skattahækkun að ræða. Skattalækkun í þeim mæli sem sveitarfélögin nýttu sér ekki eða ekki til fulls, það aukna svigrúm til útsvarsálagningar, kæmi á móti lækkun tekjuskatts ríkissjóðs.

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um afkomu sveitarfélaganna og þann vanda sem þar er við að glíma. Þau hafa sannanlega verið rekin með halla í nærfellt einn og hálfan áratug. Afkoma þeirra er vissulega mismunandi en að meðaltali er hún óviðunandi og hjá langstærstum hluta sveitarfélaganna er ástandið óviðunandi og versnandi. Menn skjóta sér hins vegar gjarnan á bak við þau örfáu sveitarfélög í landinu sem eru sæmilega aflögufær. Það væru nú meiri ósköpin ef ekki háttaði einhvers staðar þannig til að menn kæmust sæmilega af en þeim fer því miður fækkandi, eins og t.d. kom glöggt í ljós um síðustu áramót þegar allmörg sveitarfélög bættust í hóp þeirra sem fullnýta alla sína tekjumöguleika, eru komin með alla tekjuöflunarmöguleika í botn. Sjálfsagt eru nokkur fleiri í áföngum að þoka þeim upp undir þakið, eins og t.d. sveitarfélagið Reykjavík sem hefur verið að færa sig upp að þakinu ef það er ekki bara komið í það. Ég man ekki nákvæmlega hvort það náði því um áramótin, a.m.k. var þar einhver hækkun.

Þetta er auðvitað mjög bagaleg staða út frá því mikilvæga hlutverki sem sveitarfélögin hafa með höndum nú þegar. Þau fara með mjög viðamikla málaflokka sem tilheyra velferðarmálasviðinu, eins og málefni grunn- og leikskólans, þau fara með geysilega mikilvæg og vaxandi verkefni á sviði umhverfismála og ýmiss konar nærþjónustu við íbúa sína sem eru stór hluti af því daglega umhverfi og því samfélagi sem við finnum okkur í. Það gefur augaleið að það er niðurdrepandi fyrir bæði forsvarsmenn sveitarfélaganna og auðvitað íbúana ef ástandið er þannig til lengdar að sveitarfélögin séu algerlega að kikna undan verkefnum sínum. Kröfurnar um þjónustu vaxa og þau sveitarfélög sem ekki geta uppfyllt þær eða eru á góðri leið með að setja sig á hausinn vegna þess að þau eru að berjast við að gera það verða náttúrlega þegar frá líður ekki samkeppnisfær um þjónustu við íbúa sína og lenda í þeim vítahring að af því geti leitt að breyttu breytanda ásamt með öðru fólksfækkun, minni tekjur o.s.frv.

En þetta er líka óviðunandi staða, herra forseti, vegna þess að sveitarfélögin þurfa eins og aðrir aðilar að geta þróast. Sveitarfélögin þurfa að geta sótt fram, byggt upp og bætt þjónustu sína. Það eru þau fæst í færum með að gera í dag, samanber rifrildi hér um möguleika sveitarfélaganna til að taka skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla. Það var kostulegur málflutningur sem hér var uppi hjá Sjálfstæðisflokknum t.d. í gær sem fór hamförum í geðvonsku sinni yfir því að sveitarfélagið Reykjavík ætlaði að taka næstu skref í þá átt eða boðaði þá stefnumörkun. Í staðinn fyrir að fagna og gleðjast yfir því að það væru þó a.m.k. einhver sveitarfélög sem teldu sig geta eitthvað gert í þessum efnum höfðu menn allt á hornum sér og litu á það alveg eins og sérstakt vandamál ef einhver sveitarfélög í landinu ætluðu að ríða á vaðið. Menn töluðu um að þetta setti pressu á önnur sveitarfélög o.s.frv. Menn hafa ekki jafnmiklar áhyggjur af því að það setji pressu á önnur sveitarfélög þegar ýmis ónefnd rík sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, slá um sig með því að þau þurfi ekki að leggja á jafnhátt útsvar og aðrir. Setur það þá ekki pressu á hin sveitarfélögin um að lækka líka útsvarið? Nei. Ef Reykjavíkurborg ætlar hins vegar að vera í fararbroddi í þeirri þróun að innleiða í áföngum gjaldfrjálsan leikskóla þykir það alveg óþolandi.

Það er einmitt dæmi um uppbyggingarverkefni, um áframhaldandi þróun velferðarsamfélagsins, sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sérstaklega sett á oddinn og er til að undirstrika mikilvægi þess að sveitarfélögin geti þróast og ráðist í ný verkefni. Eða vilja menn hafa það þannig að þau séu rekin svoleiðis gjörsamlega á kúpunni, á felgunni, að þau geti ekkert gert nema lifað dag frá degi?

Kemur hér formaður fjárlaganefndar gleiðbrosandi í salinn. Við fögnum honum alveg sérstaklega á þessum drottins degi. Það er gott að hafa slíka forustumenn hér til skrafs og ráðagerða um þessi mál, fjármál sveitarfélaganna.

Það sjá allir heilvita menn að það er lamandi að sveitarfélögin í landinu búi til langframa, ár og áratugi, við þannig afkomu að þau geri ekkert nema safna skuldum og sökkva dýpra og dýpra í þær, eiga orðið í stórum stíl alls ekki fyrir rekstri málaflokka, hvað þá einhverjum fjárfestingum eða nýjum verkefnum og nýjum hlutum í sambandi við þróun sjálfra sín og þeirrar þjónustu sem þau veita.

Aðeins nánar síðan að efnislegum áhrifum þessa frumvarps. Það er í sem allra fæstum orðum þannig að tekjutap ríkissjóðs vegna þeirrar lækkunar tekjuskatts sem ákveðin var hér um áramótin var áætlað um 6 milljarðar kr., þ.e. eins prósentustigs lækkun tekjuskatts, nei um 5 milljarðar kr. var það víst brúttó. Ríkið kemur að vísu betur út úr því dæmi vegna þess að það fær talsvert til baka. Nettótekjutapið er því minna, kannski 4 milljarðar. Þetta mundi sem sagt þá gefa sveitarfélögunum svigrúm til hækkunar útsvars af sömu stærðargráðu, að fara úr 13,03 í 14,03. Í fylgiskjali I með þessari tillögu kemur fram að ef notaður er útsvarsstofn vegna launa ársins 2003 sem var tæpir 490 milljarðar þá gaf álagning upp á 12,80% sem var sem sagt meðaltalsálagning sveitarfélaganna 62,7 milljarða kr. tekjur. Hefðu sveitarfélögin nýtt möguleika sína til fulls, þ.e. öll farið í 13,03%, hefði það gefið 63,8 milljarða. Munurinn er þarna rúmar 1.100 milljónir. Þetta leiðir til þess að ef álagningin væri 14,3% þá mundi nýting til fulls gefa 68,7 milljarða, sem væri um 6 milljarða tekjuauki hjá sveitarfélögunum miðað við þáverandi álagningu upp á 12,8%. Ef notuð er hins vegar hækkunin úr 13,03 í 14,03, þ.e. miðað við að sveitarfélögin væru að fullnýta heimildir sínar þá er þessi tala eðlilega nokkuð lægri eða 4,9 milljarðar tæpir. Það er sem sagt um það bil tekjusvigrúmið sem þarna skapast eftir því hvernig menn kjósa að skoða það miðað við raunálagningu eða heimildir til álagningar sem er nokkuð hærri.

Þetta er ekki tilfinnanlegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Jafnvel þó að svona heimild væri bætt sérstaklega við og bara tekin út úr samhenginu við skattalækkunaráform stjórnarinnar þá skulum við hafa í huga að þau eru upp á um 30 milljarða kr. þegar það verður að fullu komið til framkvæmda á árinu 2007 eða ef það kemur einhvern tímann til framkvæmda þá verður þar orðið um að ræða um 30 milljarða kr. tekjutap ríkissjóðs. Ráðstafanir af þessu tagi mundu bæta stöðu sveitarfélaganna um segjum 5 milljarða sem er lágmark að okkar dómi. Þær eru ekki sú óskaplega stærð í þessu samhengi að það sé mönnum ofviða á nokkurn hátt. Reyndar tökum við flutningsmenn það skýrt fram að við teljum það alls ekki vera svo að þessi ráðstöfun sé einhver allsherjarlausn í fjármálum sveitarfélaganna og ein og sér dugi til frambúðar. Auðvitað ætti þetta aðeins að vera hluti af heildarendurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem er löngu, löngu tímabær og að mínu mati er einhver alvarlegasta vanrækslusynd núverandi ríkisstjórnar — er þá mjög mikið sagt — að hafa haldið sveitarfélögunum í þessari úlfakreppu sem raun ber vitni núna um langt árabil. Ég hef að vísu þá kenningu, og er ekkert feiminn við að setja hana fram, að þar sé um að ræða bara hreina pólitík, það sé bara beinharður pólitískur ásetningur að halda sveitarfélögunum í þessari fjárhagslegu spennitreyju. Í gegnum það þjónar einkavæðingar- og frjálshyggjuliðið lund sinni og þrýstir sveitarfélögunum út í ráðstafanir, mörgum hverjum alveg gegn vilja sínum, sem þeim er að skapi, þ.e. að selja eignir, að einkavæða rekstur málaflokka, að fjármagna nýframkvæmdir með einkafjármögnun o.s.frv. Þetta er gert í pólitísku skyni, ekki vegna þess að það sé hagkvæmara eða betra heldur þvert á móti. Það liggja allar upplýsingar fyrir sem þarf til þess að menn geti áttað sig á því að þegar upp er staðið þá eru slíkar aðferðir dýrari fyrir sveitarfélögin. Það var a.m.k. niðurstaða hv. þm. Gunnars Birgissonar í Kópavogi að Kópavogsbúar væru ekki svo vitlausir að þeir létu plata sig þannig þegar þeir fóru að líta á það hvort það væri gáfuleg ráðstöfun í því sveitarfélagi t.d. að fara að byggja skólamannvirki eða íþróttahús eða hvað það nú var í einkaframkvæmd.

Ég sá reikninga hjá sveitarfélagi norður í landi þar sem endurskoðunarfyrirtæki hafði verið fengið til þess að líta á það hvernig það dæmi kæmi út að selja íþróttahús staðarins og gera samning um endurleigu á því aftur til 25 ára. Það dæmi kom þannig út að það var fjárhagslega léttara fyrir sveitarfélagið fyrstu sjö árin. Á áttunda ári var dæmið á núlli. En hin árin sautján sem eftir voru tapaði sveitarfélagið samfellt og dæmið versnaði og versnaði. Þegar upp var staðið hefði rekstrarkostnaður þessa íþróttamannvirkis orðið sveitarfélaginu um 15–18% dýrari yfir tímabilið í heild ef það hefði farið hina glæsilegu leið einkaframkvæmdar.

Þannig koma þessi dæmi nú yfirleitt út þegar þau eru reiknuð, þannig að það er gegn betri vitund sem menn halda því fram að verið sé að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna eða að það sé liður í einhverri skynsamlegri fjármálastjórn að neyða þau út í slíkar aðgerðir. En það er því miður afleiðingin af þessu ástandi sveitarfélaganna og hún er pólitísk. Hún er pólitík. Hún er púra pólitík. Með því eru framkallaðar eða knúnar fram breytingar sem menn myndu alls ekki sjá fyrir að yrðu ella. Ef sveitarfélögin hefðu fjárhagslega burði og fjárhagslegt bolmagn til að velja sér þær leiðir sem þau helst vildu þá mundu þau yfirleitt ekki fara út á þessa braut. Reynslan bæði innan lands svo maður nefni nú t.d. skólaæfingarnar í Hafnarfirði eða í sveitarfélögum sums staðar í nágrannalöndunum er nú ekki beint glæsileg. Ég hef sagt við menn að þeim ætti að nægja að fara til Farum, sveitarfélagsins í Danmörku, og kynna sér æfingarnar þar sem Brixstofte og félagar stóðu þar fyrir. Þeir fóru langt með að setja það sveitarfélag á hausinn. Menn hafa síðan mátt glíma þar við gríðarlega erfiðleika eftir þá nýfrjálshyggjueinkavæðingartilraun sem gerð var í Farum kommune á valdatíma nýfrjálshyggjumanna þar. Því sveitarfélagi var mjög hampað af boðberum þessarar hugmyndafræði hér. Ég man nú ekki hvort það var beinlínis sömu dagana og spilaborgin hrundi, alla vega var það ekki löngu áður, sem einhverjir íslenskir sveitarstjórnarmenn voru svo seinheppnir að vera í kynnisferð einmitt í Farum og ætluðu að læra snilldina sem þar var praktíseruð.

Þetta eru allt saman samhangandi hlutir, herra forseti. Það er erfitt að aðskilja annars vegar fjárhagsgrundvöll sveitarfélaganna eins og hann er og hefur verið og svo hins vegar þjónustuna sem þau veita, verkefnin sem þau eiga að sinna og pólitíkina sem á bak við er eða ætti að liggja til grundvallar ákvörðunum forsvarsmanna sveitarfélaga vítt og breitt í landinu. Við getum væntanlega sjálf flest verið sammála um að við viljum að sveitarfélögin séu sjálfstæð og ráði því sjálf hvaða braut þau marka sér í þessum efnum. Þannig virkar nú lýðræðið að menn kjósa sveitarstjórnir og hafa þar einhverjar stefnuskrár. Íbúarnir eiga að sjálfsögðu að ráða því og velja þá sem þeir treysta best eða þær áherslur sem þeir vilja sjá í uppbyggingu sveitarfélagsins. En þá er heldur ekki lýðræðislegt að í reynd sé hið fjármálalega vald og sjálfstæði tekið af kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum vítt og breitt í landinu í gegnum það að menn geta sig hvergi hreyft. Það er einn veikleiki lýðræðisins eins og hann birtist okkur í dag að í raun hafa menn sáralítið sjálfstætt ákvörðunarvald og sjálfstæði til þess að koma sínum áherslum fram þegar þeir setjast niður við það borð að reyna að reka illa stætt sveitarfélag. Ætli við þekkjum ekki öll sem hér erum í salnum reynslusögur sem sveitarstjórnarfólk hefur sagt okkur af vonbrigðum sínum þegar það kemur inn í sveitarstjórn fullt af áhuga og spennt að takast á við ný verkefni og verður svo að tæma þann beiska kaleik að reynslan kennir þeim að það er sáralítið hægt að gera. Þetta eru björgunaraðgerðir og reddingar. Menn eru að reyna að halda sér á floti ár frá ári með niðurskurði og alls konar æfingum. Það er auðvitað óskaplega dapurlegt að menn skuli þurfa að vera settir í slíkar aðstæður og hefur síðan aftur þau áhrif, eins og við þekkjum líka, að það gengur líka víða orðið býsna erfiðlega að fá einfaldlega fólk til að gefa sig í þessi verkefni. Það þarf bókstaflega að leita á köflum logandi ljósi að fólki sem hefur þá þegnskylduhugsun eða fórnarlund til að bera að það gefi sig yfir höfuð í að koma nálægt rekstri sveitarfélaganna vegna þess að verkefnið er svo erfitt og lítt spennandi eins og allt er í pottinn búið.

Herra forseti. Ég held ég láti þetta nægja og legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til nefndar sem mundi væntanlega vera félagsmálanefnd, nema það sé efnahags- og viðskiptanefnd. Nú man ég ekki alveg undir hvern lög um tekjustofna sveitarfélaga heyra. Þau hljóta að heyra undir félagsmálaráðherra, held ég, þannig að ég ætla að hafa það tillögu mína þangað til ég verð þá sannfærður um að eitthvað annað sé gáfulegra.

(Forseti (BÁ): Forseti telur að eðlilegast sé að vísa þessu máli til hv. félagsmálanefndar.)