131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:25]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við mjög þörfu máli og ég vil þakka hv. frummælanda, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, fyrir að flytja hér ágætt mál. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu. Við vitum að hlutverk staðbundinna fjölmiðla skiptir oftar en ekki mjög miklu máli fyrir viðkomandi byggðarlög, í hverslags mynd sem sú starfsemi er, hvort sem um er að ræða útvarpsrekstur, sjónvarpsrekstur eða dagblöð.

Í þessari tillögu til þingsályktunar er lagt til að hæstv. menntamálaráðherra verði falið að skipa nefnd sem eigi að athuga sérstaklega stöðu þessara fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skila skýrslu í framhaldi af því. Jafnframt á nefndin að koma með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll þeirra fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Ég vil segja að mér finnst mjög brýnt að stjórnvöld komi með beinum aðgerðum að rekstri þessara fjölmiðla með því að styrkja starfsemina og vil færa rök fyrir því hér.

Ef við tökum hina staðbundnu fjölmiðla sem dæmi, einkum ritmiðlana, hafa þeir fjölmiðlar gríðarlegt hlutverk. Þeir efla sjálfsmynd íbúa viðkomandi byggðarlaga og byggðarlaganna í heild sinni og varpa oftar en ekki skýru ljósi á þau mál sem hæst ber á góma í viðkomandi byggðarlagi. Þannig efla fjölmiðlarnir samfélagsvitund fólksins, fólkið gerir sér betur grein fyrir því umhverfi sem það býr við og þeim málum sem brenna hvað helst á viðkomandi byggðarlagi. Við könnumst margir hv. þingmenn við það, sérstaklega þingmenn af landsbyggðinni, að þeir fjölmiðlar veita okkur aðhald í störfum okkar með því að benda á mál sem þarfnast úrbóta. Ég get nefnt sem dæmi í því samhengi að fréttablöð eins og Vikudagur eða Skarpur hafa verið mjög dugleg að benda okkur á mál sem við getum ýtt áfram m.a. í þingsölum Alþingis og veitir ekki af, enda höfum við hv. þm. Dagný Jónsdóttir reynt að sinna þeim fjölmiðlum sérstaklega vel.

Hæstv. forseti. Hinir staðbundnu fjölmiðlar búa oftar en ekki við mjög lítinn markað, lítinn auglýsingamarkað og tiltölulega fáa áskrifendur. Há póstburðargjöld lögðust sérstaklega á héraðsfréttablöðin fyrir tveimur eða þremur árum og urðu mjög íþyngjandi í rekstri þeirra fjölmiðla. Það hefur verið mjög erfitt fyrir þá fjölmiðla að hafa rekstur sinn réttum megin við núllið og það er náttúrlega mikið áhyggjuefni ef há póstburðargjöld og annað í rekstrarumhverfi hinna staðbundnu fjölmiðla leiðir til þess að þeir verða að hætta starfsemi sinni. Það mun bitna mjög hart á viðkomandi byggðarlögum og alveg ljóst að innri strúktúr viðkomandi byggðarlags mundi veikjast verulega við slíkt.

Hæstv. forseti. Ég talaði um það áðan að mér fyndist vert að stjórnvöld kæmu með beinum aðgerðum að því að styrkja rekstrargrundvöll þeirra staðbundnu fjölmiðla sem ég hef á undan rekið. Við höfum fyrirmyndina í þeim efnum. Við verjum nú 2.500 millj. kr. til að halda utan um Ríkisútvarp í landinu, Ríkisútvarp sem reyndar rekur svæðisstöðvar líka, þannig að fyrirmyndirnar eru fyrir hendi. Ég held að ekki þyrfti svo háa fjármuni til að styðja við starfsemi þeirra fjölmiðla sem hér um ræðir.

Ég vil gera það að sérstöku umræðuefni að mér finnst að Byggðastofnun hefði átt að vera búin að móta sér stefnu um þessa fjölmiðla fyrir löngu vegna þess að hér er um gríðarlegt byggðamál að ræða. Ég held að ég hafi ágætar heimildir fyrir því að forsvarsmenn Byggðastofnunar séu búnir að átta sig á því. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og Byggðastofnun á að hafa fjármuni og ætti að vera búin að móta stefnu um að styðja við rekstur þessara fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Síðastliðið vor fórum við í gegnum mikla fjölmiðlaumræðu og hér ætlaði allt að fara af hjörunum við að ræða um framtíð íslenskrar fjölmiðlunar. Því miður bar ekki mikið á því í þeirri umræðu að rætt væri um hlutverk og framtíð staðbundinnar fjölmiðlunar. Mig minnir að einn hv. þingmaður hafi nefnt staðbundna fjölmiðla á nafn í ræðu og það var hv. þm. Dagný Jónsdóttir og fyrir það ber að sjálfsögðu að þakka. Þetta er mjög mikilvægt mál og í raun og veru er undarlegt að í þeirri miklu umræðu sem fór hér fram sólarhringum saman skyldi ekkert vera minnst á þessa mikilvægu starfsemi. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir landsbyggðina, hefur mjög mikil áhrif á viðkomandi byggðarlög þar sem þessir miðlar eru starfræktir og ég vil minna á að það er ekki einungis í þágu íbúa á viðkomandi svæðum heldur er stærstur hluti áskrifenda að þessum fjölmiðlum oftar en ekki brottfluttir einstaklingar sem hafa flutt úr sveitarfélagi sínu annaðhvort til náms eða varanlega en vilja fylgjast með framvindu mála í heimabyggð sinni.

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum að reyna að þrýsta á hv. menntamálanefnd að drífa í því að afgreiða málið frá sér og senda það til umsagnar þannig að við getum afgreitt það sem þingsályktun frá Alþingi í haust. Ég fagna yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar áðan þar sem hann tók vel í það að tekið verði tillit til umhverfis hinna staðbundnu fjölmiðla við fjárlagagerðina í haust. Það er mikilvægt að við skoðum það mjög gaumgæfilega og ég held að það sé pólitískur vilji fyrir því á Alþingi að við hugum nánar að starfsemi þessara fjölmiðla.