131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:38]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þá alvarlegu stöðu sem blasir við í efnahagsmálum þjóðarinnar, verði ekki á þeim tekið.

Skuldir heimilanna vaxa mjög hratt. Við glöddumst á vissan hátt yfir þeim breytingum sem urðu seint í fyrra og í byrjun þessa árs, möguleikum fólks til að létta greiðslubyrði lána sinna með hagstæðari lánum hjá bönkunum. Maður hélt að með því yrði greiðslubyrðinni létt af heimilunum. En nú virðist annað koma á daginn. Það er ekki aðeins að hús og íbúðir hafi verið skuldsettar í topp heldur hækka yfirdráttarlán, tímabundin yfirdráttarlán hjá bönkunum. Vextir af þessum lánum eru ekki hagstæðir, herra forseti. Ætli það séu ekki eitthvað á milli 14 og 20%?

Þetta gerir það að einstaklingarnir og samfélagið allt verður afar viðkvæmt fyrir breytingum í efnahagslífinu. Þegar boginn er svo þaninn má ekkert út af bera. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram tillögur um bráðaaðgerðir til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika, þar á meðal að hvetja til að eftirlit sé haft með bönkunum og þeir hvattir til að huga vel að eiginfjárstöðu sinni og lánastefnu. Lítils háttar breyting í gengi eða lítils háttar breyting í útflutningi eða verðbólgu skapaði þannig ekki miklar holskeflur.