131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að sú aukning sem orðið hefur á yfirdráttarlánum er mikið áhyggjuefni. Það var vissulega jákvætt þegar bankarnir komu inn með lán fyrir einstaklinga með verulega lægri vöxtum. Fólk gat farið út í miklar skuldbreytingar og nýtti sér það. Ég átti ekki von á því að frá áramótum hefðu yfirdráttarlán aukist um 4 milljarða kr. og séu nú um 58 milljarðar kr. Það sem er áhyggjuefnið í þessu eru þeir miklu vextir sem fólk þarf að greiða af yfirdráttarlánum, 17–18% vextir.

Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra sem hér er stödd hvort hún telji ekki ástæðu til að bregðast við þessu. Yfirdráttarlán heimilanna jafngilda nú 280 þús. kr á hvern einstakling á aldrinum 18–80 ára. Miðað við að vextir af yfirdráttarlánum séu 17–18% eru árlegar vaxtagreiðslur af 280 þús. kr., sem jafna má við skuldir allra einstaklinga 18–80 ára, 50 þús. kr. á ári.

Á þessu þarf auðvitað að taka, að í 4% verðbólgu séu yfirdráttarlánavextir um 17–18%. Skuldir einstaklinga við bankana hafa aukist frá því í ágústmánuði, úr 197 milljörðum kr. í 345 milljarða kr., sem er veruleg aukning, um 75%. Þess vegna veldur það vonbrigðum og undrun að yfirdráttarlánin hafi aukist svona gríðarlega. Maður veltir fyrir sér hvort heimilin séu mörg hver að komast í þrot þrátt fyrir að hagstæð lán hafi boðist til skuldbreytinga.

Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til að bregðast við og beita sér fyrir því að yfirdráttarvextir, sem eru núna 17–18%, verði lækkaðir.