131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:50]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. málshefjanda hér að það er ástæða til að hafa uppi aðvörunarorð. Það er vissulega áhyggjuefni að skuldir heimila hafi hækkað mjög mikið en við verðum að hafa í huga að eignir heimilanna hafa líka hækkað mjög mikið. Það er mikilvægt atriði í þessu sambandi.

Spurt hefur verið: Mun ekki ríkisstjórnin beita sér í málinu? Það er mjög einfalt að spyrja svona en hv. þingmenn eru ekki með miklar tillögur um hvað skuli gera (ÖJ: Jú, jú, jú, jú.) og hvaða tillögur ættu helst að koma fram í þessu sambandi. Við búum við frjálst flæði fjármagns, ekki bara innan lands heldur líka í Evrópu, og við höfum lýst yfir ánægju með það, flest, að vextir hafa verið að lækka. Þegar hv. þingmenn eru í rauninni að tala með því að yfirdráttarvextir lækki hlýtur að felast í því sá hvati að taka frekari lán á þeim kjörum. Þetta er allt saman dálítið snúið.

Eins finnst mér að erindi hv. þingmanna Vinstri grænna í ræðustól hér í dag hafi m.a. verið það að vekja athygli á tillögu sem þeir hafa lagt fram. Ég mun að sjálfsögðu kynna mér hana. En ég gleðst yfir einu og það er það að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa loksins áttað sig á því að ég stjórna ekki Fjármálaeftirlitinu. Það voru ekki óskir um það í þessari umræðu að ég ætti að beina einu eða öðru til Fjármálaeftirlitsins, og það er mikil framför. Fjármálaeftirlitið er sjálft fullbært til þess að taka ákvarðanir, það hefur faglega þekkingu til þess og hefur tekið eigin ákvarðanir. Jafnframt fylgist það með markaðnum frá degi til dags. Það er mjög mikilvægt.