131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:05]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að verða vitni að því hvernig ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur grafið undan byggðum í landinu. Byggðirnar á sunnanverðum Austfjörðum hafa verið leiknar grátt og það sýna m.a. tölur frá Hagstofunni.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki látið sér nægja það kvótakerfi sem hefur grafið undan byggðunum og er algerlega árangurslaust. Það skilar nú helmingi minni þorskafla á land en fyrir daga þess. Nei, Framsóknarflokkurinn hefur látið til sín taka á fleiri sviðum. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur t..d sett svo strangar reglur um slátrun búfjár að þær leiddu til lokunar sláturhússins á Breiðdalsvík. Hæstv. landbúnaðarráðherra treystir sér hins vegar ekki til að standa við þær reglur sjálfur heldur hefur kennt Evrópusambandinu um sem eru hrein og klár ósannindi.

Hæstv. iðnaðarráðherra hækkaði nýlega rafmagnsreikninginn á þeim sem hita hús sín með raforku og ég veit ekki hvað verður næst hjá Framsóknarflokknum. Ég spyr.

Nú verður Stöðvarfjörður fyrir barðinu á óréttlátu og lélegu fiskveiðistjórnarkerfi. Í framhaldinu er rétt að spyrja frú byggðamálaráðherra hæstvirta hver viðbrögð hennar séu við þeim válegu tíðindum. Ég var á formlegum fundi, sögulegum, fyrir hádegi og þá var að heyra á hæstv. forseta Halldóri Blöndal að honum fyndist þessi fyrirspurn léttvæg. Hann leiðréttir mig ef ég fer rangt með. Ég var staddur á Stöðvarfirði í síðustu viku og ræddi bæði við sveitarstjóra og starfsfólk í frystihúsinu þar. Á því fólki var annað að heyra en að ástandið væri léttvægt. Fólk hefur verulegar áhyggjur af atvinnumálum á Stöðvarfirði og þess vegna væri mjög fróðlegt að fá að heyra afstöðu stjórnarflokkanna. Andvaraleysi þeirra er algert í málinu.

Hæstv. byggðamálaráðherra ritaði á heimasíðu sína þá skoðun að hvorki væri forsvaranlegt né hagkvæmt að róa frá hverju byggðarlagi. Það væri verið að föndra við byggðirnar með slíku háttalagi. Því erum við í Frjálslynda flokknum algerlega ósammála vegna þess að við trúum því að það séu bæði líffræðileg og síðan ýmis hagræn rök fyrir því einmitt að róa frá stöðum eins og Stöðvarfirði í stað þess að vera með eyðibyggðastefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í fiskveiðistjórn.

Stjórnvöld bjuggu til kerfi sem leikur þessar byggðir illa. Þessi sömu stjórnvöld skulda íbúunum einhver svör og aðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem uppi er.