131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:14]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þingmanns beinir í fyrsta lagi sjónum okkar að stöðu sjávarbyggða og óöryggi vegna núverandi fiskveiðistjórnar, þ.e. með frjálsri sölu og leigu á kvóta. Engin sjávarbyggð getur verið örugg með að halda löndun og vinnslu í núverandi kerfi, þ.e. vinnu við fiskvinnslu.

Í öðru lagi beinir hún sjónum okkar að mikilvægi þess að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og forðast að öryggi heilla byggðarlaga byggi á einni eða einhæfri atvinnugrein eins og verið hefur í mörgum sjávarbyggðum.

Í þriðja lagi að mikilvægi menntunar sem hægt er að stunda frá heimabyggð og því að jaðarsvæði stóriðju geta orðið illa úti og ekki notið jákvæðrar þróunar. Það beinir augum einnig að mikilvægi góðra samgangna til að stækka atvinnusvæði.

Ég beini þeim óskum (Forseti hringir.) til Austurbyggðar og þeirra verkefna sem fram undan eru að þau gangi eftir og að sveitarfélagið fái góðan stuðning til að vinna að málum sínum.