131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:19]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þingmenn kjördæmisins áttu fyrir tæpum hálfum mánuði ágætan fund með fulltrúum frá Þróunarstofu Austurlands, sveitarstjórn Austurbyggðar og fulltrúum Samherja um atvinnuástandið á Stöðvarfirði þar sem farið var yfir sviðið og þau nýju viðhorf sem eru nú að verða til á Austurlandi með jarðgöngum og stóriðju við Reyðarfjörð.

Mér þótti athyglisvert að hv. þm. Jóhann Ársælsson skyldi hafna því að sjávarbyggð gæti breyst og byggt sig upp með öðrum hætti. Akranes er dæmigerð sjávarbyggð sem nú blómstrar vegna hinnar miklu iðnaðaruppbyggingar sem þar hefur verið, sementsverksmiðju, járnblendiverksmiðju, álverksmiðju. Hið sama verður auðvitað upp á teningnum á Miðausturlandi, álverið þar mun setja svip sinn á atvinnulífið.

Það sem ég hafði hins vegar orð á í morgun, til þess að það valdi ekki misskilningi, er að það sé athyglisvert að sjá hér fyrirspurn um (Forseti hringir.) atvinnubrest á Stöðvarfirði vegna þeirrar uppbyggingar sem þar er. (Forseti hringir.) Þá verður manni hugsað til annarra sjávarbyggða um landið en ég veit að hv. þm. Sigurjón Þórðarson skilur ekki mælt mál.