131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins eiga mikið ólært í pólitík. Hér kom annar þingmaður flokksins og sagði að ekki væri boðlegt að segja að verið væri að vinna að málum. (Gripið fram í.) Ég hefði haldið að einmitt aðferðin til þess að ná niðurstöðu væri að vinna í málum, og það er verið að gera í þessu tilfelli.

Það sem er gott er að horft er með jákvæðu hugarfari fram á veginn af íbúum Stöðvarfjarðar og þannig er það yfirleitt sem mál leysast. Það sagði forsvarsmaður sveitarfélagsins, að mál leysist frekar með jákvæðu hugarfari en neikvæðu.

Hv. þingmaður básúnar hér að Framsóknarflokkurinn sé að eyðileggja allt með sjávarútvegsstefnunni og hann sé að eyðileggja allt með því að leggja niður sláturhús (Gripið fram í.) og sé að hækka raforkureikningana — en hvað með álverið? Hv. þingmaður nefndi ekki álverið þar sem Framsóknarflokkurinn var vissulega í forustu. Það er verið að byggja álver á Austurlandi ef hv. þingmaður skyldi ekki vita það, og það vill svo til að Framsóknarflokkurinn var þar í forustu. Það vill svo til að Frjálslyndi flokkurinn studdi hvorki Kárahnjúkavirkjun né álversuppbygginguna. Þetta er nú flokkurinn sem þykist öllu geta bjargað. Ég held að hv. þingmaður ætti aðeins að hugsa sig tvisvar um áður en hann kemur hér upp í stólinn með stóru orðin sín.

Svo talar hann um það að Framsóknarflokkurinn reki eyðibyggðastefnu. (SigurjÞ: Já. …) Það er ég sem hef orðið hérna. Vegna þess sem ég skrifaði á heimasíðu mína — ég er stolt af því sem ég skrifa þar, og hv. þingmaður vitnar æðioft í það — vil ég segja að ég hef haldið því fram að það sé ekki aðferðin að skipta kvótanum niður á byggðarlögin og síðan eigi þau að vinna úr honum. (Gripið fram í.) Við verðum að reka sjávarútveginn sem alvöruatvinnustarfsemi og það erum við að gera í dag. Það er gott mál að Samherji, það fyrirtæki sem hv. þingmaður sjálfsagt hefur ekki mikið álit á, er að vinna með heimamönnum að lausn mála. Það er reyndar nýjung að svo sé og ég er mjög ánægð með það sem verið er að vinna að (Forseti hringir.) en mun halda áfram að fylgjast með.