131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:30]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Dagnýju Jónsdóttur fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram. Það er rétt sem fram kom að búið er að ræða þetta mál í sjávarútvegsnefnd þingsins og það sem mér fannst standa eftir þá umræðu var að ekki virðist vera neitt ákveðið ferli í sjávarútvegsráðuneytinu sem slíkar beiðnir fara í. Við gátum ómögulega fengið skýr svör við því hvernig tekið væri á svona beiðnum innan ráðuneytisins, í hvaða farveg þær færu, hvort leitað væri umsagna sérfræðinga eða heimamanna. Það virtist nánast vera þannig að ef fram kæmi beiðni um undanþágu til að veiða með dragnót, jafnvel á stóru skipi eins og Sólborgu, innan marka sem slíkt hefur ekki verið leyft áður, þá gæti einhver ákveðinn embættismaður eða aðili innan ráðuneytisins veitt það leyfi án þess að beiðnin færi í formlegt ferli. Væri gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þetta sé réttur skilningur, hvort það geti verið að slík beiðni fari ekki í formlegt ferli innan ráðuneytisins.