131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:31]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér þann óvenjulega munað að hrósa hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir ágætt svar. Málið er að dragnótin virkar þannig, og það eiga þeir að vita sem á annað borð kynna sér hvernig veiðarfæri virka, að hún er í raun og veru eina veiðarfærið sem hægt er að nota til að fanga smáfisk á grunnslóð ef nota á hann í áframeldi. Það er bara þannig. Það er miklu vænlegra að nota dragnót til þessara verka en til að mynda að beita botnvörpu, dragnótin er miklu léttara veiðarfæri, fer miklu betur með botninn og veldur minna umhverfistjóni.

Mig langar við þetta tækifæri til að benda á ágæta grein sem vinur minn og frændi vestur á fjörðum, góðvinur okkar hæstv. sjávarútvegsráðherra, Níels Adolf Ársælsson, útgerðarmaður og skipstjóri, skrifaði í Bæjarins besta fyrir nokkru síðan. Greinin heitir Dragnótaveiðar við Ísland. Þar er virkni þessara veiðarfæra útskýrð mjög vel og við lestur greinarinnar ættu allir að geta sannfærst um að hér var í raun og veru ekki neinn voðalegur skaði á ferðum heldur voru menn að vinna að góðum málum.