131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:44]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Svör hæstv. ráðherra við fyrirspurninni vekja frekar spurningar en að hann svari henni. Ég held að ástæða sé til að hæstv. ráðherra útskýri fyrir okkur hvers vegna ekki hafa komist á samningar við hrefnuveiðimenn og félag þeirra um veiðar og líka hvers vegna hæstv. ráðherra telur ekki ástæðu til að fylgjast með því hvernig gengur að selja kjötið. Það hlýtur að vera hluti af því að taka ákvörðun um hve mikið eigi að veiða að vita hvort einhverjir sölumöguleikar séu fyrir hendi og hvernig það gengur. Það var auk þess upplýst í fyrra, í fyrirspurn sem hæstv. ráðherra svaraði, hvað hefði selst af kjötinu þá. Ég geri ráð fyrir að þær upplýsingar séu til staðar og full ástæða til að afla þeirra upplýsinga í viðbót sem hv. þingmaður spurði um.