131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:45]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Svör hæstv. sjávarútvegsráðherra vöktu athygli mína og vöktu upp ansi margar spurningar til viðbótar við þær spurningar sem hv. fyrirspyrjandi, Kolbrún Halldórsdóttir, lagði fram um hrefnuveiðar.

Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur á hverju stendur með samninga við Félag hrefnuveiðimanna. Eru einhverjar blikur á lofti með það að ekki verði ráðist í vísindaveiðar á hrefnu á þessu sumri? Nú hafa mun færri dýr verið veidd en áætlun gerði ráð fyrir á sínum tíma innan þeirra ára sem hún átti að taka yfir og maður veltir fyrir sér hvaða áhrif það hefur á niðurstöður þegar dýrum fækkar svona frá því sem lagt var af stað með í tilraunina. Því væri gott ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur hvort hægt verði að veiða jafnmargar hrefnur á þessu árabili og ráð var fyrir gert í upprunalegum tillögum.