131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:49]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Mér þykir það ámælisvert að hæstv. ráðherra skyldi ekki hafa séð ástæðu til að afla þeirra upplýsinga sem beðið er um í spurningum mínum þegar hann veit að hægt er að afla þeirra hjá Félagi hrefnuveiðimanna. Ætlast hæstv. ráðherra til að ég sem alþingismaður óski eftir þessum upplýsingum við félagið? Ég veit að hæstv. ráðherra á greiðari aðgang að þeim upplýsingum en ég, en ég get svo sem alveg hringt í strákana hjá hrefnuveiðifélaginu. Hins vegar finnst mér það vera í verkahring ráðherrans að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar.

Við vitum að það er meginstefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum að nýta eigi hvali með sjálfbærum hætti. En ég spyr: Hvers vegna eigum við að veiða hvali til þess eins að skera þá upp og sjá hvað er í maganum á þeim þegar við í fyrsta lagi vitum að hægt er að rannsaka hvali og neysluvenjur þeirra og lífsvenjur án þess að drepa þá og þegar við í öðru lagi eigum enga möguleika á að selja afurðirnar? Við sitjum uppi með þær í frystigámum — hæstv. sjávarútvegsráðherra veit kannski hvar — og við vitum að sama saga er að gerast í Noregi. Norðmenn sitja líka uppi með óseldar afurðir af hrefnu vegna þess að það eru engir markaðir.

Kunnátta mín á reglum CITES er alveg nægilega mikil fyrir mig og hæstv. ráðherra þarf ekkert að snupra mig fyrir það að ég viti ekki hvernig CITES-viðaukarnir hljóða. Ég veit að hrefnan er í I. viðauka og ég veit að þeir sem hafa gert athugasemd eða fyrirvara við það geta selt þessar afurðir með ákveðnum leyfum. En hvernig fór með leyfin sem átti að afla hjá umhverfisráðuneytinu fyrir sölu á afurðum, hrefnuafurðum í fyrra eða hittiðfyrra til Kína? Þau leyfi voru ekki veitt vegna þess að Kína hafi ekki gert fyrirvara.

Ég veit því allt um það að þessar vörur verða ekki seldar. Japanar eru sjálfum sér nógir, Norðmenn geta ekki selt afurðirnar, Íslendingar geta það ekki heldur (Forseti hringir.) og ég spyr: Hver er þá ávinningurinn?