131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Rækjuveiðar í Arnarfirði.

608. mál
[14:57]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina.

Haustkönnun Hafrannsóknastofnunar fór fram 29. september til 2. október 2004 í Arnarfirði. Stofnvísitala rækju hvað snertir heildarvísitölu og kvendýravísitölu var töluvert fyrir neðan meðallag. Nýliðun rækju var þó nokkuð góð og var tveggja ára rækja áberandi. Þorskur, ýsa og lýsa var um allan fjörð nema innst í Arnarfirði, í svokölluðum Borgarfirði. Fjöldi þorsks eins árs og eldri var margfalt meiri en nokkru sinni áður og sama gilti um ýsuna. Rækjan stóð þétt á mjög takmörkuðu svæði og aðþrengd vegna þorsks í næsta nágrenni. Taldar voru líkur á að veiðar á rækjunni mundu dreifa henni og gera hana þannig aðgengilegri fyrir þorsk og annan fisk.

Í ljósi þessa og þróunar annarra innfjarðarrækjustofna á undanförnum árum lagði Hafrannsóknastofnun til að rækjuveiðar yrðu ekki heimilaðar að sinni í Arnarfirði og var farið að tillögu stofnunarinnar.