131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Rækjuveiðar í Arnarfirði.

608. mál
[15:00]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta voru hin fiskifræðilegu rök sem ég flutti áðan í svari mínu. Hins vegar hefur þetta vakið upp ýmsar spurningar um vistkerfið í Arnarfirði og tengsl rækjunnar og bolfisksstofnanna og hvort nokkuð sé hægt að gera þegar málum er komið eins og þarna, að rækjan er mjög aðþrengd vegna hugsanlega tímabundinnar aukinnar gengdar yngri árganga bolfisksstofna á svæðinu. Upp hafa komið hugmyndir, sem síðast þegar ég vissi var verið að undirbúa með heimamönnum, um að setja út eins konar fiskeldiskvíar og fóðra í þær. Kvíarnar yrðu hins vegar ekki með botni í nótinni þannig að þegar væri búið að venja fiskinn á að sækja fóðrið inn í kvína væri hægt að snurpa fyrir botninn og ná þannig þorski á tiltölulega einfaldan og auðveldan hátt í áframeldi á svipaðan hátt og við vorum að ræða fyrr í dag í þarsíðustu fyrirspurn á undan.

Þetta hefur vakið menn til umhugsunar og þeir eru að reyna að gera eitthvað. Menn hafa látið sér detta sitthvað í hug. Hversu sniðugt það síðan reynist verður tíminn að leiða í ljós.