131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Meðferðarúrræði í fangelsum.

612. mál
[15:02]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fangelsismálastofnun hefur sett fram markmið stofnunarinnar í fangelsismálum og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu fangelsa. Þar er fjallað um ástandið eins og það er í dag og þörf á úrbótum. Fangelsismálastofnun telur mikilvægt að sett verði þau markmið að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín.

Það er staðreynd að sífellt fleiri einstaklingar sem koma til afplánunar í fangelsum eru háðir fíkniefnum. Eiturlyfjaneysla hefur aukist verulega á síðustu árum og áratugum og afbrotum tengdum eiturlyfjaneyslu hefur fjölgað í takt við það. Margir fangar er við komu í fangelsi í harðri neyslu eða eiga við verulegt áfengisvandamál að stríða. Eiturlyfjaneyslu fylgja síðan oftar en ekki ýmiss konar geðræn vandamál og fangar geta sótt tíma hjá sálfræðingi og þeim gefst kostur á að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í vímuefnameðferð.

Í samantekt Fangelsismálastofnunar er bent á að á þessu séu þó annmarkar þar sem sálfræðingar anni vart eftirspurn eftir viðtölum og að vímuefnameðferðir sem bjóðast föngum séu oft og tíðum stuttar og settar fram á röngum tímapunkti, þ.e. í lok afplánunar, en fangar eiga margir við langvarandi vímuefnavanda að stríða við komu í fangelsið.

Í síðustu úttekt Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingum sem gerð var hér kom fram að skortur væri á vímuefnalausri deild í fangelsum. Árið 2000 var áformað að byggja upp slíka deild í fangelsinu á Litla-Hrauni og hafist handa við að þjálfa og mennta fangaverði til starfa, en engin fjárveiting hefur enn fengist í verkefnið þannig að síðan þá hefur ekkert gerst.

Það virkar hálf öfugsnúið að boðið sé upp á meðferð við vímuefnaneyslu við lok afplánunar en ekki strax í upphafi. Það segir sig sjálft að ef boðið væri upp á öfluga meðferð strax og fangi kemur inn og eftirfylgni á meðan á afplánun stendur skilaði meðferðin betri árangri. Þá er einnig ljóst að verulega dragi úr hvatanum til að smygla eiturlyfjum inn í fangelsið þar sem þörfin yrði minni. Síðast en ekki síst yrði þetta til þess að auka möguleikana á að fangar nýttu dvölina til að byggja sig upp til framtíðarþátttöku í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið baráttumál Fangelsismálastofnunar en ekki síður aðstandenda fanga.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fangar eigi kost á meðferð við fíkniefnaneyslu strax í upphafi afplánunar?