131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Varnarviðbúnaður við eiturefnaárás.

624. mál
[15:20]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að málið er í eðlilegum farvegi. Í því er ekkert óeðlilegt að gerast. Þvert á móti tel ég að það hafi verið haldið rétt á málinu með því að kalla til sérfræðinga til að leggja mat á stöðu málsins og setja það í þann farveg sem ég hef gert, með því að almannavarnaráð hefur fjallað um það og þeir aðilar sem að þessum málum koma. Hluti af þeim umræðum sem þurfa að fara fram um þessi mál er að menn verða að gæta þess að tala ekki óvarlega um þau, eins og hér sé yfirvofandi hætta. Fyrir liggur að það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir. Það er nauðsynlegt að búa sig undir að slík hætta geti verið fyrir hendi. Það er það sem við höfum verið að gera. Að láta eins og það hefði þurft að skýra frá þessu með einhverjum hamagangi, eins og hætta væri yfirvofandi á þessu sviði, hefði gefið alranga mynd af málinu. Það er hins vegar nauðsynlegt, eins og ég hef látið vinna að, að búa sig undir að þessir atburðir geti orðið hér eins og annars staðar.

Ég tel að við stöndum í svipuðum sporum og aðrar þjóðir sem hafa þurft að leggja mat á þessa hluti. Í þessu efni er nauðsynlegt að eiga mjög víðtækt og gott alþjóðlegt samstarf, m.a. við lögregluyfirvöld, enda voru fulltrúar frá Íslandi þátttakendur í ráðstefnunni um líftæknihryðjuverkin, sem var haldin á vegum Interpol á dögunum. Við fylgjumst náið með þessu. Við höfum líka gert breytingar, eins og menn vita, á skipan almannavarnamála. Þar eru samtvinnuð störf lögreglu og almannavarnayfirvalda. Við stöndum því vel að vígi við framkvæmd allra slíkra áætlana, auk þess sem slökkviliðin í landinu hafa búnað og hafa þjálfað menn til þess að vinna að þessu. Það sem við þurfum að gera er að samhæfa kraftana og taka á því ef menn telja að um veika hlekki sé að ræða.