131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Konur sem afplána dóma.

626. mál
[15:29]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þær tölur sem hæstv. ráðherra fór með varðandi samfélagsþjónustuna sýna svo ekki verður um villst að þetta refsiúrræði hefur sannað sig frá því lögin tóku gildi. Því hefur reyndar verið breytt síðan og sá rammi verið víkkaður sem gefur fleirum möguleika á að sækja um samfélagsþjónustu.

Það er vissulega rétt að í markmiðslýsingum fyrir framtíðaruppbyggingu fangelsanna í skýrslu frá Fangelsismálastofnun ríkisins kemur fram að stefna skuli að því að byggja nýtt fangelsi þar sem úrræði fyrir konur verði bætt frá því sem nú er í Kópavogsfangelsinu. Það sjást hins vegar engin merki þess að hefja eigi byggingu nýs fangelsis. Það er ekki á fjárlögum þessa árs og þess vegna er langt þangað til þær munu búa við svipaðar aðstæður og karlfangar sem afplána langtímadóma. Það er staðreynd að í fangelsinu í Kópavogi búa konur við verri aðstæður og minni möguleika en karlar sem dæmdir hafa verið til að sitja langan tíma í fangelsi. Það þarf að bæta úr og auka möguleika þeirra til að dvelja í opnari vistun en verið hefur.

Ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra, þar eð núna er fangi í afplánun á Sólheimum í Grímsnesi, hvort komið hafi til tals að finna slík sérúrræði fyrir konur.