131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:35]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fylgi hér eftir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um helgidagafrið.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa aðila, m.a. fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og umsagnaraðila frá Samtökum verslunar og þjónustu og Landssambandi íslenskra verslunarmanna. Umsagnir bárust einnig frá fleiri aðilum og var í störfum nefndarinnar jafnframt tekið tillit til þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi matvöruverslana sem uppfylla ákveðin skilyrði, þ.e. að verslunarrými sé undir 600 fermetrum og a.m.k. 2/3 hlutar veltunnar séu sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki, verði heimiluð föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Þetta helgast einkum af jafnræðissjónarmiðum, en á landsbyggðinni tíðkast það nokkuð að margar tegundir verslunarstarfsemi sameinist undir einu þaki, svo sem bensínstöð, matvöruverslun, söluturn og myndbandaleiga. Í þéttbýli er þessu síður fyrir að fara en þó þekkjast að sjálfsögðu nokkur dæmi þess. Því ríkir ekki jafnræði í aðstöðu ferðamanna jafnt sem heimamanna til að nálgast matvæli á þeim helgidögum sem frumvarpið tekur til.

Nefndin ræddi hvort frumvarpið skerti með einhverjum hætti rétt verslunarfólks til frítíma, en telur að kjarasamningar verndi þann rétt með afgerandi hætti. Hvað rýmkun á afgreiðslutíma ákveðinna verslana á tilteknum helgidögum varðar hafa öll sjónarmið verið vegin og metin og ákveðið að fara leið sem komi til móts við þá þróun í verslun sem átt hefur sér stað undanfarin ár, sem og þarfir ferðaþjónustunnar. Um leið var horft til fordæma frá öðrum ríkjum. Með hliðsjón af þeim takmörkunum sem frumvarpið gengur út frá og ákvæðum kjarasamninga um frítíma verslunarfólks telur nefndin að sú leið sem farin er í frumvarpinu sé heppileg.

Nefndarálit þetta stafar frá allsherjarnefndinni allri, en þó með þeirri undantekningu að hv. þm. Atli Gíslason, sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, var ekki samþykkur álitinu.

Nokkuð var rætt um það í nefndinni hvort ástæða væri til að gera efnisbreytingar á frumvarpinu en ég tel að eftir nokkuð vandlega yfirferð hafi nefndin komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að frumvarpið sé þannig úr garði gert að tekið hafi verið hæfilegt tillit til þeirra sjónarmiða sem eru að takast á um málið og því leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.