131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:46]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er bryddað á gömlu álitamáli og gömlu deilumáli verslunarmanna, stjórnvalda og kaupmanna, eins og við vitum báðir, ég og hv. 9. þm. Reykv. s., og er auðvitað spurningin sú hversu langt eigi að ganga í því að tryggja með lögum að einstakar stéttir eigi frí á ákveðnum dögum.

Ég held að þetta mál sé mjög flókið og að raunar gildi ekki hið sama um eðli þess hvar sem er á landinu. Sums staðar er óhjákvæmilegt að halda verslun eins og þessari opinni lengur en annars staðar vegna þess að ekki er annarra kosta völ. Ef við á hinn bóginn tökum Reykjavík sem dæmi vitum við að litlar matvöruverslanir eru í vaxandi mæli komnar inn á bensínstaðina og þá er heimilt að selja matvöru á slíkum stöðum. Ég get á hinn bóginn bent á staði úti á landi þar sem bensínsalan og matvöruverslunin eru reknar af sama aðila en í mismunandi húsakynnum. Á slíkum stöðum getur verið nauðsynlegt að hægt sé að veita ferðamönnum ákveðna þjónustu og lipurð. Ég get tekið sem dæmi Skútustaði í Mývatnssveit og ýmsa aðra þvílíka staði.

Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að rýmka helgidagalöggjöfina eins og hér er gert en ég er fullkomlega sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það er líka óhjákvæmilegt að verslunarmenn haldi vel utan um það svigrúm sem gefið er í kjarasamningum við atvinnurekendur til þess að það verði ekki misnotað þannig að sú regla komist á að allar verslanir eigi að vera opnar á páskum eða föstudaginn langa.

Ég man eftir því hér á árum áður að t.d. á Akureyri var óheimilt að hafa búð opna eftir sex á kvöldin nema það væri lúga. Undir öðrum kringumstæðum voru ástæður þannig að ef kaupmaðurinn stóð sjálfur í búðinni mátti hún vera opin en ekki ef það var launafólk og þar fram eftir götunum. Síðan vitum við líka að á vissum stöðum er óhjákvæmilegt að þjónusta ferðafólk.

Við getum tekið dæmi af versluninni í Ásbyrgi. Þar er nú svo komið að bensínsalan er öll með kortum. Eigum við að skilja það svo að þau hjón sem reka þá verslun — er það vilji hv. þingmanns að slíkir aðilar hafi þá ekki möguleika til að þjónusta um hvítasunnu þann mikla fjölda ferðamanna sem sækir heim Ásbyrgi? Við erum að tala um flókinn hlut. Meðan ég var aktífur í félagi verslunar- og skrifstofufólks var ég mjög harðvítugur á þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður er að lýsa hér og skil þess vegna mjög vel hvað á bak við liggur.

Ég hlýt líka að vekja athygli á því að málið er ekki eins einfalt og þá var. Verslunarhættir hafa breyst. Mér þótti vænt um frammíkall hv. 5. þm. Norðaust. hér áðan, Steingríms J. Sigfússonar, þegar hann sagði að við frændurnir bærum sérstaklega fyrir brjósti hagsmuni Baugs. Það er auðvitað alveg rétt, við berum fyrir brjósti hagsmuni allra fyrirtækja í landinu og fólksins auðvitað um leið. Þetta mál snýr samt ekki að Baugi. Það snýr að því að hægt sé að halda uppi eðlilegri þjónustu við ferðamenn á þeim miklu umferðarhelgum sem páskar og hvítasunnan eru.

Ég var í Mývatnssveit nú um páskana. Þar var mikill fjöldi ferðamanna og gott veður, endur syntu þar á Laxá og Kálfastrandarvogunum. Ég sá þar ýmsa fallega fugla en þar var líka nauðsynlegt annað veifið að opna verslunardyrnar fyrir fólk sem á slíkri þjónustu þurfti að halda. Ég held því að reynsla verði að koma á þetta mál og við verðum að reyna aðeins að opna dyrnar til að ferðaþjónustan geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Ég er þó fullkomlega sammála hv. þingmanni um að það yrði mikið slys ef það yrði að almennri reglu að verslunarfólk yrði að vinna á páskum og á föstudeginum langa og hér í Reykjavík t.d. get ég ekki séð að nein nauðsyn sé á því.