131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að undantekningin í lögunum, sem er að finna í 1. mgr. 5. gr., heimilar starfsemi „lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga“, svo og gististarfsemi og tengda þjónustu. Undantekningin í lögunum er nú þegar talsvert víð. Hér er hins vegar verið að fara fram á mun meiri rýmkun og samtök verslunarmanna mótmæla þeirri rýmkun með góðum rökum og mér finnst hv. þingmaður ekki hafa svarað þeim röksemdafærslum verslunarmanna sem koma fram í umsögnunum. Ég tel alveg ljóst að verslunarmenn hafi mjög mikið til síns máls og það er eðlilegt að Alþingi Íslendinga taki mið af þeim umsögnum og skoði meginsjónarmið þeirra þegar sú rýmkun sem við fjöllum hér um er til umræðu.